Landssamband kúabænda segir, að óvissa ríki nú um hvort staðið verði af hálfu ríkisins við samning, sem gerður var við kúabændur árið 2004 um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar.
Á heimasíðu samtakanna er vísað til fréttatilkynningar ríkisstjórnarinnar frá í morgun um um að gjöld og samningar, sem taka breytingum á milli ára samkvæmt verðlagi, hækki í samræmi við þær áætlanir sem settar voru fram í fjárlagafrumvarpinu í byrjun október þar sem verðhækkanir ársins 2008 voru áætlaðar 11,5% en hækkun ársins 2009 var áætluð 5,7%.
Kúabændur segja, að gangi þetta eftir muni verðbætur ekki verða greiddar í samræmi við ákvæði samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Þetta virðist fela í sér að allar greiðslur til kúabænda sem samningurinn mæli fyrir um, verði mánuð hvern árið 2009 sama eða mjög svipuð upphæð eins og greitt var fyrir í desember 2008, óháð verðbólgu á árinu 2009.
„Stjórnvöld hafa rætt þetta mál við forsvarsmenn bænda og stjórn Landssambands kúabænda fjallaði um málið á símafundi í gær. Það er sameiginleg afstaða forsvarsmanna bænda, að standa beri við gerða samninga og umrædd áform séu algerlega á ábyrgð stjórnvalda. Gangi þetta eftir, mun það leiða af sér umtalsvert tekjutap kúabænda, sem þó fer alveg eftir verðbólgustigi ársins 2009, sem óljóst er hvert verður. Annað atriði sem miklu skiptir er að í 22 ár hafa bændur getað treyst því að ríkið muni standa að fullu við gerða samninga," segir á heimasíðu Landssambands kúabænda.