Landsbankinn fékk verkfræðinema til þess að gera ítarlega talningu á fjölda ónotaðra íbúða á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannabyggðum vegna þeirrar óvissu sem hefur ríkt um fjölda þeirra. Einbýlishús voru ekki talin með.
Niðurstaða talningarinnar er sú að fjöldi tilbúinna íbúða er 1.241 á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbæ, Árborg/Selfossi, Hveragerði og Akranesi. Fjöldi fokheldra íbúða er 509 og 1.250 íbúðir eru í byggingu.
Segir á vef Samtaka iðnaðarins að tölur um magn íbúðahúsnæðis í byggingu á Íslandi hafi að verulegu leiti verið byggðar á ágiskunum og erfitt hafi reynst að fá áreiðanleg gögn þar að lútandi. Tölur á borð við fjögur til sjö þúsund hafi gjarnan verið nefndar.
Ari Skúlason í þróunar- og árangursstjórnun Landsbankans hafði umsjón með talningunni. Hann segir á vef Samtaka iðnaðarins að bestu fáanlegu skipulagsgögn hafi verið notuð til grundvallar.
Verkfræðinemarnir hafi gengið um svæðin og merkt inn á opinberu gögnin hver staða hvers húsnæðis væri og hvort einhver byggi í íbúðunum. Stundum hafi verið erfitt að meta hvort íbúar byggju í íbúðunum: „En við létum vafann ráða því við þurftum að vera 100% viss um að hún væri ekki í notkun,“ segir á vef Samtaka iðnaðarins.