Tannlæknar hækka verð

Komum fullorðinna til tannlækna vegna stórra aðgerða hefur fækkað eftir að kreppan skall á. Tannlæknar óttast að komum foreldra með börn til þeirra muni fækka eftir áramót þegar þeir neyðast til þess að hækka taxta sína vegna 40 til 50 prósenta hækkunar á aðföngum frá birgjum.

Að sögn Ingibjargar S. Benediktsdóttur, formanns Tannlæknafélags Íslands, eru þess dæmi að fullorðnir sjúklingar ákveði að bíða með að láta setja í sig krónur og brýr og annað þess háttar.

„Menn eru kannski að draga þetta fram yfir jól af því að þeir vita ekki hvernig staðan verður. Með þverrandi kaupmætti, sérstaklega hjá þeim lægst launuðu, sjáum við fram á að foreldrar komi ekki með börn sín til tannlæknis fyrr en þau eru komin með tannpínu, verði upphæðin sem Tryggingastofnun ríkisins endurgreiðir vegna tannlæknaþjónustunnar ekki hækkuð. Þar með hefur árangurinn sem þegar hefur náðst með reglubundnu eftirliti og flúorskolun einu sinni til tvisvar á ári orðið að engu.“

Ingibjörg segir að endurgreiðslan sem foreldrar fá frá Tryggingastofnun, TR, hafi hækkað annað slagið en ekkert í líkingu við raunhækkanir. „Viðmiðunargjaldskrá ráðherra er frá árinu 1998 og hefur verið hækkuð öðru hverju en hún hefur ekki einu sinni fylgt verðbólgunni. Á fjárlögum núna er gert ráð fyrir þriggja prósenta hækkun. Fólk er alltaf að fá minna og minna endurgreitt.“

Hinn 1. desember síðastliðinn var Ingibjörg kölluð á fund hjá Sjúkratryggingastofnun vegna framlengingar á 18 mánaða samningi um skoðun og greiningu á 3 og 12 ára börnum sem rennur út núna um áramótin. Sú þjónusta er foreldrum að kostnaðarlausu.

„Við höfðum þrýst á um að samningurinn yrði framlengdur. Það stóð til í upphafi að fjölga síðar árgöngunum sem fengju þessa þjónustu endurgjaldslaust og bæta inn í hana viðgerðum en nú var ekki áhugi á slíku. Foreldrarnir þurfa áfram að greiða fyrir sjálfar viðgerðirnar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert