Tekjuskattur og útsvar hækka

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Geir H. Haarde og Árni M. Mathiesen …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Geir H. Haarde og Árni M. Mathiesen gera grein fyrir tillögum ríkisstjórnarinnar. mbl.is/RAX

Halli ríkissjóðs verður 165–170 milljarðar á næsta ári samkvæmt tillögum sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir fjárlaganefnd Alþingis. Er m.a. gert ráð fyrir að tekjuskattur hækki um 1 prósentu, úr 22,75% í 23,75% auk heimildar til hækkunar á útsvari.

Með hækkun tekjuskatts munu tekjur ríkissjóðs hækka um  7 milljarða króna frá því sem áður var áformað. Ennfremur mun ríkisstjórnin heimila hækkun útsvars sveitarfélaganna sem getur leitt til hækkunar tekna þeirra og kemur til móts við aukaframlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem að óbreyttu munu falla niður um næstu áramót.

Helmingur af sparnaði í nýframkvæmdum verður í vegagerð en að auki verður m.a. frestað framkvæmdum vegna nýrrar flugvélar og varðskips Landhelgisgæslunnar, dregið úr fjölgun leiguíbúða og húsbyggingu á vegum Stofnunar Árna Magnússonar verður slegið á frest.

Tillögur ríkisstjórnarinnar voru kynntar á blaðamannafundi í morgun. Þar kom fram að ljóst sé, að tekjur lækki mikið frá fyrri áætlunum og gjaldaliðir hækki vegna hækkandi verðlags og gengisfalls íslensku krónunnar. Að óbreyttu hafi stefnt í að halli ríkissjóðs á árinu 2009 gæti orðið um 215 milljarðar króna.

Ríkisstjórnin hefur einsett sér að grípa til ráðstafana til að tryggja að halli á ríkissjóði á árinu 2009 verði ekki meiri en 165-170 milljarðar króna. Segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu, að í áætlunum ríkisstjórnarinnar sé gengið út frá því grundvallarviðmiði að sparnaður komi sem minnst niður á velferðarkerfinu, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og löggæslu en þess í stað verði meiri áhersla lögð á hagræðingu í rekstri ráðuneyta og hefðbundinna stjórnsýslustofnana. Staðinn sé vörður um kjarabætur til millitekju- og láglaunahópa.

Hlutfallslega verður mesti samdráttur rekstargjalda í  utanríkisþjónustunni og hjá æðstu stjórn ríkisins en almennt er samdráttur í rekstri ráðuneyta á bilinu 5-7%. Gert er ráð fyrir að gjöld og samningar sem taka breytingum á milli ára samkvæmt verðlagi hækki í samræmi við þær áætlanir sem settar voru fram í fjárlagafrumvarpinu í byrjun október þar sem verðhækkanir ársins 2008 voru áætlaðar 11,5% en hækkun ársins 2009 var áætluð 5,7%. Er þetta nokkuð lægra en mælingar og spár gera ráð fyrir nú. Engu að síður mun lágmarksframfærslutrygging almannatrygginga hækka til jafns við hækkun vísitölu neysluverðs á árinu 2008 og spár ársins 2009 sem leiðir til tæplega 20% hækkunar um næstu áramót fyrir þá sem lægstar hafa bæturnar og 9,6% hækkun fyrir aðra bótaþega.

Fallið verður frá aukningu útgjalda til þróunaraðstoðar, mótframlagi í
endurhæfingarsjóð verður frestað, framlög til sókna verða lækkuð, fallið verður frá framlögum í rannsókna- og tækjasjóði og ýmsir styrkjaliðir verða lækkaðir.

Talsverður samdráttur verður í nýframkvæmdum á árinu 2009 frá því sem áður var áformað. Samtals mun lækkun framkvæmda nema um 11 milljörðum króna eða 21% af áætluðum kostaði við nýframkvæmdir ársins. Þrátt fyrir þessar breytingar munu framkvæmdir næsta árs nema ríflega 41  milljarði króna sem er svipuð upphæð og framkvæmt var fyrir á þessu ári Segir fjármálaráðuneytið, að þetta þýði að árið 2009 verði eitt mesta framkvæmdaár sögunnar með tilliti til fjárveitinga ríkisins. Með því vilji ríkisstjórnin leggja sitt af mörkum við að halda uppi framkvæmdum og þar með skapa atvinnu þegar atvinnuleysi fari vaxandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka