Þjóðin lúrir á milljörðum

Peningaseðlar í umferð jukust um rétt rúma 12,9 milljarða á milli september og október eða hlutfallslega um rúm áttatíu prósent. Mánuðina fyrir hrun bankanna þriggja voru á milli 14,6 til 16,6 milljarðar króna í höndum landsmanna. Í október fór fjárhæðin í 28,950 milljarða króna.

Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, segir að útstreymið hafi verið mest 3. október. „Það náði hámarki 10. október en lagaðist verulega frá þeim tíma.“ Útstreymið sé merki um óróann og óvissuna sem var í þjóðfélaginu dagana áður og við fall bankanna þriggja.

Í nóvemberlok hafði myntum og seðlum í umferð hins vegar fækkað og nam upphæðin um 2,55 milljörðum króna milli mánaða. „Það sýni sig nú að traust á innlán í bönkum hefur aukist. En samt er það þannig að talan í lok nóvember er nærri tvöföld sú upphæð sem áður var í umferð.“

Aldrei hafa fleiri seðlar verið í umferð á Íslandi. „Frá árinu 1983 og fram á þetta ár hafði hlutfall seðla og myntar verði nánast stöðugt eða um eitt prósent af landsframleiðslu. Nú er hlutfallið um tvö prósent.“ Það sé lágt sé miðað við aðrar þjóðir. „Víða hefur vakið athygli hversu vel gekk í þessu ófremdarástandi að halda innlendri greiðslumiðlum, það er kortanotkun landsmanna, gangandi.“ Í upphafi hafi greiðslumiðlunin við útlönd hökt en hún komist hægt og bítandi í lag.

„Viðbúið er að fólk vilji hafa meira af seðlum meðan óróinn varir. Við vörum við því að geyma háar fjárhæðir heima.“ Þjófnaður og bruni fáist ekki bættur hvað þá önnur rýrnun peninga, eins og verðbólga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert