Tillögur að siðareglum fyrir borgarfulltrúa voru lagðar fram á fundi borgarráðs Reykjavíkur í dag. Jafnhliða er verið að útfæra nákvæmar tillögur að reglum um gjafir, boðsferðir, aukastörf og stjórnarsetur kjörinna fulltrúa.
Markmið siðareglanna er að skrá og skilgreina þá háttsemi sem kjörnir fulltrúar vilja sýna af sér við öll sín störf og er gert ráð fyrir að þeir undirgangist siðareglurnar með undirskrift sinni. Starfshópurinn, sem borgarstjóri skipaði í ágúst, leggur auk siðareglanna til að borgarráð láti útfæra reglur um gjafir, boðsferðirm aukastörf og stjórnarsetur fyrir kjörna fulltrúa. Jafnframt að tekin verði afstaða til þess hvort setja eigi frekari leiðbeiningar eða reglur um birtingu upplýsinga um eignir, aukastörf og stjórnarsetur.
Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri fagnar tillögunni sem fulltrúar allra flokka hafa sameinast um og segir siðareglurnar marka ákveðin tímamót.
Í bókun fulltrúa Samfylkingar og VG á fundinum segir, að það sé fagnaðarefni að samstaða hafi náðst um að skrá siðareglur fyrir kjörna fulltrúa á vettvangi borgarstjórnar. Reglurnar byggi á ítrekuðum tillöguflutningi, ítarlegri undirbúningsvinnu og umræðum í hópi borgarfulltrúa.
Brýnt sé að unnið verði hratt að því að setja reglur um gjafir, boðsferðir, aukastörf og stjórnarsetur, auk þess sem Samfylkingin sé eindregið þeirra skoðunar með sama hætti eigi að setja reglur um birtingu upplýsinga um eignir og annað, sbr. erlendar fyrirmyndir.
Í starfshópnum sem skipaður var af borgarstjóra sátu Magnús Þór Gylfason, aðstoðarmaður borgarstjóra og jafnframt formaður hópsins, auk borgarfulltrúanna Dags B. Eggertssonar, Gísla Marteins Baldurssonar, Svandísar Svavarsdóttur og Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur.