Ummæli ómerkt

Magnús Ragnarsson.
Magnús Ragnarsson. mbl.is/ÞÖK

Hæstirétt­ur hef­ur staðfest dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur um að til­tek­in um­mæli í grein­um í í DV og Frétta­blaðinu um Magnús Ragn­ars­son, fyrr­um sjón­varps­stjóra Skjás Eins skuli vera dauð og ómerkt. Útgáfu­fé­lagið  365 miðlar var dæmt til að greiða Magnúsi 600 þúsund krón­ur í bæt­ur auk 240 þúsund króna til að kosta birt­ingu dóms­ins. Þá var 365 dæmt til að greiða máls­kostnað.

Hæstirétt­ur seg­ir, að einka­líf manna, heim­ili og fjöl­skylda njóti friðhelgi sam­kvæmt 71. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar. Í frá­sögn af hjú­skap­arslit­um ein­um og sér fel­ist þó ekki brot á þeirri friðhelgi. Í um­mæl­um, sem birt­ust í DV, þar sem vísað var til einka­lífs Magnús­ar, hafi hins veg­ar fal­ist ærumeiðandi móðgan­ir sem varði við hegn­ing­ar­lög og þegar þau séu les­in í sam­hengi við meg­in­mál frétt­ar­inn­ar þyki þau einnig fela í sér ærumeiðandi aðdrótt­an­ir.

Í frétt í Frétta­blaðinu var m.a. sagt að Magnús væri kallaður „Maggi glæp­ur“ á markaðsdeild  365. Í héraðsdómi sagði, að þessi um­mæli væru móðgandi og meiðandi fyr­ir Magnús og feli í sér aðdrótt­un. Engu máli skipti í þessu sam­hengi hvaða for­send­ur 365 miðlar hafi talið sig hafa til þess að skeyta viður­nefni þessu við nafn Magnús­ar í frétt­inni.

Fyr­ir­sögn á ann­arri grein var „Geðþekk­ur geðsjúk­ling­ur," og fylgdi mynd af Magnúsi með. Í grein­inni sagði m.a., að dag­skrár­stefna  Skjás Eins væri í anda geðklofa­sjúk­lings, en geðklofa­sjúk­ling­ur­inn sé geðþekk­ur. 

Vara það mat héraðsdóms, að með því að birta stóra ljós­mynd af Magnúsi við hlið yf­ir­skrift­ar­inn­ar ,,geðþekk­ur geðsjúk­ling­ur“ hefði verið vísað til hans á afar móðgandi hátt og dróttað að geðheilsu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert