Öflugar andófsaðgerðir boðaðar eftir jól

Hörður Torfason á Austurvelli
Hörður Torfason á Austurvelli Morgunblaðið/Golli

Blásið er til mótmæla á Austurvelli sem fyrr, á laugardaginn kl. 15. Í þetta skiptið verða mótmælin þó með öðrum hætti en undanfarna laugardaga og markast það m.a. af anda aðventunnar og dvínandi aðsókn í undanfara jólanna. Mótmælunum er þó hvergi nærri lokið heldur er unnið að kappi að frekara andófi.

„Í undanfara jólanna hefur skiljanlega dregið úr aðsókn á fundina,“ segir í fréttatilkynningu sem Hörður Torfason skipuleggjandi mótmælanna sendi frá sér í kvöld. „Mæður og feður vilja búa börnum sínum gleðileg og friðsæl jól. Slíkt er sjálfsagt og eðlilegt, en um leið er engin ástæða til að leggja fundina af. Þessar aðstæður kalla hinsvegar á breytt fundarform.“

Ræðuhöldum verður því frestað í bili næsta laugardag en í staðinn verður efnt til kyrrðar- og friðarstundar. Fólk er hvatt til að mæta á Austurvöll og sýna samstöðu gegn ástandinu með 17 mínútna þögn.

Þótt dragi úr mótmælunum yfir jólavikurnar gefast þó forsvarsmenn þeirra ekki upp, enda ekki ólíklegt að margir mæti tvíefldir til mótmæla að nýju á nýju ári. Hörður segir að unnið sé á bak við tjöldin af mikilli elju að því að undirbúa frekara andóf gegn ríkisstjórninni, sem rúin sé trausti stórs hluta þjóðarinnar.  „Stefnt er að öflugum aðgerðum strax að hátíðum afloknum og fyrr ef ástæða þykir,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka