Bændur vilja óbreytta samninga

Íslenskt sauðfé.
Íslenskt sauðfé. mbl.is/Árni Torfason

Það stefnir í verulegan niðurskurð á framlögum frá ríkinu til sauðfjárbænda samkvæmt sauðfjársamningi á næsta ári. Áður hefur verið sagt frá því að niðurskurður á fjárlögum leiði til minnkunar á beingreiðslum til kúabænda, fyrir hvern mjólkurlítra. Ástæðan er sú að í endurskoðuðu fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir því að greiðslur hækki um 5,7% í takt við gamlar verðbólguspár, en ekki um þá tugi prósenta sem verðbólga er talin verða á næsta ári. Þar með yrði vísitölutrygging þessara samninga í raun afnumin.

Á heimasíðu landssambands sauðfjárbænda segir að hugmyndir um breytingar á samningum hafa verið viðraðar af stjórnvöldum við forystumenn bænda en að ekki hafi verið ljáð máls á slíku, hvorki af forystu landssambandsins eða annarra sem málið varðar. „Ljóst er að verði þetta gert er um einhliða aðgerð ríkisstjórnarinnar og Alþingis að ræða og á ábyrgð þeirra,“ segja sauðfjárbændur á heimasíðunni.

Á fréttavef Bændasamtakanna er haft eftir Haraldi Benediktssyni, formanni BÍ að á þessari stundu geti samtökin ekki tekið afstöðu til breytinga á fjárlögum þar sem endanlegar tillögur hafi ekki komið fram. „Ég get ekki staðfest að ákvörðun um breytingar á búvörusamningum liggi fyrir og engir samningar um slíkt hafa verið gerðir milli bænda og stjórnvalda. Breytingar á núverandi samningum hafa verið viðraðar við bændur og við mótmælt þeim harðlega. Ef breytingar verða í þessa veru er um einhliða ákvörðun stjórnvalda að ræða," segir Haraldur þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert