Bagalegt að fresta nýbyggingu á Litla-Hrauni

Litla Hraun
Litla Hraun mbl.is/Ómar

„Það er auðvitað mjög bagalegt að það sé stefnt að því að fresta byggingunni,“ segir Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður Litla-Hrauns, um frestun fyrirhugaðrar nýbyggingar við Litla-Hraun. Fram kom þegar ríkisstjórnin kynnti tillögur um endurskoðuð fjárlög í fyrradag, að byggingu fangelsisins yrði frestað en í bígerð hafði verið að hefja framkvæmdir á næsta ári.

Margrét segir að lengi hafi verið beðið eftir úrbótum á Litla-Hrauni. Hún segir að fangelsið hafi ekkert heyrt annað af áformunum um frestun en það sem fram kom hjá ríkisstjórninni í fyrradag.

Á Litla-Hrauni eru á bilinu 85-90 fangar en 77 pláss eru fyrir afplánunarfanga. Þau hafa verið fullnýtt en í ár hefur í fyrsta sinn verið tvímennt í klefa og þeir sem hafa verið í afplánun hafa verið mun fleiri en áður hefur gerst. Til stóð að fyrsti áfangi nýbyggingarinnar á Litla-Hrauni yrði móttökuhús. Þar hefði komið ný aðstaða fyrir heimsóknir, sem í dag er inni í gömlu byggingunni í fangelsinu sjálfu. „Þar hefðum við fengið mun betri aðstöðu til leitar, bæði á þeim sem koma í fangelsið og í öllum aðföngum,“ segir Margrét.

Margrét segir að í fangelsiskerfinu sé brýn þörf á að bæta við plássum. Á annað hundrað manns séu á boðunarlista og bíði fangelsisafplánunar. „Fangelsin hafa frá áramótum verið yfirfull og þörfin fyrir fangapláss er mjög mikil,“ segir Margrét.

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segist hafa skilning á ákvörðun um frestun byggingar nýs fangelsis. Hann leggur áherslu á að brýnt sé að Fangelsismálastofnun fái fjármagn til rekstrar þeirra fangelsa sem þegar eru til staðar en í ár námu fjárframlög ríkisins til stofnunarinnar 1.065 milljónum króna. Páll segir að Fangelsismálastofnun hafi eins og aðrar ríkisstofnanir þurft að gæta aðhalds en „það eru takmörk fyrir því hversu mikið við getum dregið úr kostnaði og jafnframt haldið fullum rekstri“.

Spurður um hversu löng bið sé eftir afplánun segir Páll það afar misjafnt. Hluti fanga hafi óskað eftir fresti á afplánun. Annar hluti eigi möguleika á að afplána með samfélagsþjónustu en þriðji hlutinn þurfi að afplána í fangelsi. Menn séu teknir inn strax ef hægt er og ef menn teljast hættulegir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert