Hafa ekki tíma fyrir truflun

Árni Sigfússon
Árni Sigfússon SteinarH

„Við erum bara mjög einörð í því að vinna okkar vinnu, skoða kosti og galla íslands í alþjóðasamstarfi. Við látum ekkert trufla okkur í þeirri vinnu, enda höfum við eiginlega ekki tíma til þess að láta trufla okkur,“ segir Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sem ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni þingmanni leiðir Evrópuumræðu Sjálfstæðisflokksins fram að landsfundi í janúar.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar sagði í útvarpsviðtali á Rás 1 í morgun að stjórnarsamstarfinu yrði slitið eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins, ef stjórnarflokkarnir hefðu þá enn tvær mismunandi stefnur í peningamálum og horfðu með gersamlega ólíkum hætti á verkefnin. „Þá held ég að það hljóti að liggja þannig,“ sagði Ingibjörg.

Aðspurður segir Árni Ingibjörgu velkomið að ganga í Sjálfstæðisflokkinn ef hún vill hafa áhrif á umræðuna innan hans. „Annars er öllum velkomið að taka þátt í þessu verkefni með okkur. Ingibjörg Sólrún er þar ekki undanskilin,“ segir Árni.

Einn flokkur segi öðrum ekki fyrir verkum

Kristján Þór Júlíusson fékk þá spurningu hvort sú vitneskja, að það slitni upp úr stjórnarsamstarfinu ef niðurstaðan verður ekki á einn veg, hafi ekki áhrif á niðurstöðu flokksmanna. „Ég held að þetta eigi ekkert að rugla Sjálfstæðismenn í þeirri vinnu sem er fyrir hendi,“ segir Kristján Þór. „Sem stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar bendi ég bara á það, að í gildi er samstarfssáttmáli á milli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Honum hefur ekki verið breytt. Ef það á að ræða breytingar á honum þá verður að gefa hvorum flokki um sig rými til þess og tækifæri til þess að endurmeta afstöðu sína til ákveðinna þátta, ef þær kröfur eru uppi hjá öðrum hvorum stjórnarflokknum.“

Hann segir að myndun nýs stjórnarsáttmála geti ekki gengið með þeim hætti að annar flokkurinn segi hinum fyrir verkum. „Ég ætla ekki Samfylkingunni að gera það, fremur en að Sjálfstæðisflokkurinn segi henni fyrir verkum í því hvernig hún tæklar sína pólitík.“

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert