Robert Dariusz Sobiecki, 19 ára maður sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir, hefur ekki enn fundist, að sögn varðstjóra lögreglunnar.
Hæstiréttur dæmdi Robert Dariusz Sobiecki í 3 ára fangelsi í síðustu viku fyrir að nauðga stúlku á salerni Hótels Sögu í mars á síðasta ári. Málið var lengi í réttarkerfinu en Robert Dariusz var upphaflega sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur. Hæstiréttur ómerkti þann dóm og vísaði málinu aftur til héraðsdóms, sem dæmdi hann þá í 3 ára fangelsi.
Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir að Robert Dariusz Sobiecki hafi verið í farbanni þar til dómur féll í Hæstarétti. Fangelsismálayfirvöld hafa heimild til þess að gefa út handtökuskipun þegar dómur fellur þegar nauðsyn þykir og það var gert í þessu tilviki.
Að sögn Páls mun maðurinn hefja afplánun um leið og hann finnst.
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir hans eða dvalarstað eru beðnir að hafa samband við lögregluna í síma 444-1100.