Mikill fjárhagsvandi heilbrigðisstofnana

Landspítali.
Landspítali. mbl.is/ÞÖK

Heilbrigðisstofnanir eiga við mikinn rekstarvanda að etja og glíma nú við 2,2 milljarða króna halla á þessu ári. Að auki stefnir í að halli á rekstri Landspítala verði tæpir 2 milljarðar króna í lok ársins. 

Þetta kemur fram í álitum frá meirihluta og minnihluta heilbrigðisnefndar Alþingis um fjárlagafrumvarpið og er þar vísað í upplýsingar frá forstöðumönnum heilbrigðisstofnana. Þar muni mest um að áætlaður rekstrarhalli öldrunarstofnana verði 1 milljarður króna. Þá stefnir heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu  í 700 milljóna króna halla,  Heilbrigðisstofnun Austurlands í 350 milljóna halla og og Heilbrigðisstofnun  Suðurnesja í 200 milljóna halla.

Þá er vísað í yfirlit heilbrigðisráðuneytis um rekstrarhorfur heilbrigðisstofnana að staða Landspítala í árslok 2007 var neikvæð sem nam 449.975 milljónir króna og áætluð rekstrarafkoma þessa árs stefnir í að vera neikvæð upp á 1.958.300 milljónir.

Í áliti meirihluta nefndarinnar er fagnað sérstaklega því sem fram hafi komið á  fundi með forsvarsmönnum Landspítala að góður árangur hafi náðst í rekstri spítalans það sem af er ári ef frá eru talin áhrif gengislækkunar. 

Gengisbreytingar hafa haft mikil áhrif

Í áliti nefndarmeirihlutans kemur fram, að ljóst megi vera að miklar gengisbreytingar íslensku krónunnar hafi haft mikil áhrif á afkomu margra stofnana á árinu til hins verra. Ekki liggi fyrir hvernig brugðist verði við þeim vanda þar sem frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2008 hefur ekki verið lagt fram. 

Jafnfram er bent á, að ákveðnar líkur séu á aukinni aðsókn í heilbrigðisþjónustuna vegna áhrifa þrenginga í samfélaginu og áfalla, sem tengist núverandi ástandi, á heilsufar. Eigi það ekki síst við í grunnþjónustunni.

Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar um niðurskurð á fjárlagafrumvarpinu, verða útgjöld heilbrigðisráðuneytis lækkuð um 6,9 milljarða króna á næsta ári miðað við upphaflegt fjárlagafrumvarp. Þar munar mest um 1,74 milljarða króna lækkun á fyrirhuguðum fjárframlagi til Landspítala. Þá er fjárheimild til undirbúnings byggingar nýs hátæknisjúkrahúss lækkuð um 400 milljónir króna.

Unnið að endurskipulagningu heilbrigðisstofnana

Í tillögunum kemur fram, að í heilbrigðisráðuneytinu sé unnið að  endurskipulagningu heilbrigðisstofnana. Stefnt er að því að ein heilbrigðisstofnun  verði í hverju heilbrigðisumdæmi á landsbyggðinni. Gert er ráð fyrir að verkefni flytjist á milli stofnana og umdæma og verði fjárheimildir á liðnum nýttar í þeim tilgangi.

Segir í tillögunum að markmiðið með endurskipulagningunni sé að standa vörð um  grunnþjónustu heilsugæslunnar og bráðaþjónustu sjúkrahúsa í þeim efnahagsþrengingum sem þjóðin gengur nú í gegnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert