Mikill fjárhagsvandi heilbrigðisstofnana

Landspítali.
Landspítali. mbl.is/ÞÖK

Heil­brigðis­stofn­an­ir eiga við mik­inn rekst­ar­vanda að etja og glíma nú við 2,2 millj­arða króna halla á þessu ári. Að auki stefn­ir í að halli á rekstri Land­spít­ala verði tæp­ir 2 millj­arðar króna í lok árs­ins. 

Þetta kem­ur fram í álit­um frá meiri­hluta og minni­hluta heil­brigðis­nefnd­ar Alþing­is um fjár­laga­frum­varpið og er þar vísað í upp­lýs­ing­ar frá for­stöðumönn­um heil­brigðis­stofn­ana. Þar muni mest um að áætlaður rekstr­ar­halli öldrun­ar­stofn­ana verði 1 millj­arður króna. Þá stefn­ir heilsu­gæsl­an á höfuðborg­ar­svæðinu  í 700 millj­óna króna halla,  Heil­brigðis­stofn­un Aust­ur­lands í 350 millj­óna halla og og Heil­brigðis­stofn­un  Suður­nesja í 200 millj­óna halla.

Þá er vísað í yf­ir­lit heil­brigðisráðuneyt­is um rekstr­ar­horf­ur heil­brigðis­stofn­ana að staða Land­spít­ala í árs­lok 2007 var nei­kvæð sem nam 449.975 millj­ón­ir króna og áætluð rekstr­araf­koma þessa árs stefn­ir í að vera nei­kvæð upp á 1.958.300 millj­ón­ir.

Í áliti meiri­hluta nefnd­ar­inn­ar er fagnað sér­stak­lega því sem fram hafi komið á  fundi með for­svars­mönn­um Land­spít­ala að góður ár­ang­ur hafi náðst í rekstri spít­al­ans það sem af er ári ef frá eru tal­in áhrif geng­is­lækk­un­ar. 

Geng­is­breyt­ing­ar hafa haft mik­il áhrif

Í áliti nefnd­ar­meiri­hlut­ans kem­ur fram, að ljóst megi vera að mikl­ar geng­is­breyt­ing­ar ís­lensku krón­unn­ar hafi haft mik­il áhrif á af­komu margra stofn­ana á ár­inu til hins verra. Ekki liggi fyr­ir hvernig brugðist verði við þeim vanda þar sem frum­varp til fjár­auka­laga fyr­ir árið 2008 hef­ur ekki verið lagt fram. 

Jafn­fram er bent á, að ákveðnar lík­ur séu á auk­inni aðsókn í heil­brigðisþjón­ust­una vegna áhrifa þreng­inga í sam­fé­lag­inu og áfalla, sem teng­ist nú­ver­andi ástandi, á heilsu­far. Eigi það ekki síst við í grunnþjón­ust­unni.

Sam­kvæmt til­lög­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar um niður­skurð á fjár­laga­frum­varp­inu, verða út­gjöld heil­brigðisráðuneyt­is lækkuð um 6,9 millj­arða króna á næsta ári miðað við upp­haf­legt fjár­laga­frum­varp. Þar mun­ar mest um 1,74 millj­arða króna lækk­un á fyr­ir­huguðum fjár­fram­lagi til Land­spít­ala. Þá er fjár­heim­ild til und­ir­bún­ings bygg­ing­ar nýs há­tækni­sjúkra­húss lækkuð um 400 millj­ón­ir króna.

Unnið að end­ur­skipu­lagn­ingu heil­brigðis­stofn­ana

Í til­lög­un­um kem­ur fram, að í heil­brigðisráðuneyt­inu sé unnið að  end­ur­skipu­lagn­ingu heil­brigðis­stofn­ana. Stefnt er að því að ein heil­brigðis­stofn­un  verði í hverju heil­brigðisum­dæmi á lands­byggðinni. Gert er ráð fyr­ir að verk­efni flytj­ist á milli stofn­ana og um­dæma og verði fjár­heim­ild­ir á liðnum nýtt­ar í þeim til­gangi.

Seg­ir í til­lög­un­um að mark­miðið með end­ur­skipu­lagn­ing­unni sé að standa vörð um  grunnþjón­ustu heilsu­gæsl­unn­ar og bráðaþjón­ustu sjúkra­húsa í þeim efna­hagsþreng­ing­um sem þjóðin geng­ur nú í gegn­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka