Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir á heimasíðu sinni að menn hljóti að velta því fyrir sér hvort formaður Samfylkingarinnar hafi raunverulega hótað Sjálfstæðisflokknum stjórnarslitum eða sett honum afarkosti taki Sjálfstæðisflokkurinn ekki upp stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum.
Sigurður Kári vísar með þessu til ummæla, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét falla í þættinum Vikulokunum í Útvarpinu í dag. Þar sagði hún að hún teldi ljóst að það yrði kosið til Alþingis á ný ef ekki yrði ákveðið í upphafi næsta árs að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Sjálfstæðisflokkurinn mun taka afstöðu til málsins á landsfundi í janúar.
„Getur það verið að formanni Samfylkingarinnar þyki eðlilegt og málefnalegt að sjálfstæðismenn taki afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu undir þeirri hótun að komist þeir ekki að niðurstöðu sem er öðrum stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum sem ekkert hafa með málefni Sjálfstæðisflokksins að gera ekki þóknanleg þá sé ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sjálfhætt? Ég vona að formaður Samfylkingarinnar hafi sagt meira en hún ætlaði sér í viðtalinu í morgun," segir Sigurður Kári.
Hann segist einnig vona, að forysta Sjálfstæðisflokksins og fulltrúar flokksins á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins láti ekki stilla sér upp við vegg með þessum hætti þegar þeir taka afstöðu til spurningarinnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
„Afstaða okkar sem sækjum landsfund Sjálfstæðisflokksins hlýtur að eiga að byggja á málefnalegum forsendum sem taki mið af hagsmunum þjóðar okkar og pólitískri sannfæringu okkar sjálfra. Ekki þrýstingi frá forystu annarra stjórnmálaflokka," segir hann.