Krefjast gæsluvarðhalds í dag

Átján ára gamall piltur var stunginn með hnífi í brjóstholið í nótt fyrir utan skemmtistað á Hverfisgötu og hefur árásarmaðurinn verið handtekinn. Hann hafði þó yfirgefið svæðið þegar handtakan átti sér stað.

Einhver orðaskipti munu hafa átt sér stað milli mannanna áður en hnífnum var brugðið á loft, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu sem segir vitni hafa verið að árásinni. Hinn særði var kominn inn í bifreið þegar lögreglan kom á vettvang og var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Þaðan var hann fluttur í morgun á Landspítalann við Hringbraut til frekari rannsókna.

Áverkar hans eru alvarlegir að sögn lögreglu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun leggja fram kröfu um gæsluvarðhald yfir árásarmanninum síðar í dag. Lögregla kveðst ekki geta veitt frekar upplýsingar um málið að svo stöddu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert