Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun að hún og Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokks, hefðu rætt um breytingar sín á milli á ríkisstjórninni en vildi ekkert segja nánar um það. Sagði hún stjórnvöld verða að svara kalli um breytingar og vísaði þar til Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar.
„Við verðum að sýna skýran vilja til að taka á þeim málum, sem mest hafa verið gagnrýnd úti í samfélaginu,“ sagði Ingibjörg Sólrún.
Jafnframt sagði hún líklegt að boðað yrði til þingkosninga áður en kjörtímabilinu lyki ef niðurstaðan yrði sú að ekki verði sótt um aðild að Evrópusambandinu í upphafi næsta árs. Þá yrði væntanlega einnig kosið fyrir lok kjörtímabilsins ef niðurstaðan yrði sú að sækja eigi um aðild því það kalli væntanlega á breytingar á stjórnarskrá.
Ingibjörg var spurð hvort orð hennar mætti túlka sem hótun til Sjálfstæðisflokksins um að stjórnarsamstarfinu verði slitið, samþykki flokkurinn ekki á flokksþingi í lok janúar að sækja um aðild að ESB. Hún svaraði að þá stæði ríkisstjórnin í þeim sporum, að stjórnarflokkarnir hefðu tvær mismunandi stefnur í peningamálum og horfðu með gersamlega ólíkum hætti á verkefnin. „Þá held ég að það hljóti að liggja þannig."