Sendi bréf í leyfisleysi

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Sverrir

Fulltrúi Vinstri-grænna í velferðarráði Reykjavíkurborgar, Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi, hefur sent fjölmiðlum bréf með viðkvæmum persónugreinanlegum upplýsingum, í leyfisleysi. Bréfið sem um ræðir fékk borgarfulltrúinn frá stúlku sem á í félagslegum erfiðleikum og nýtur þjónustu unglingaheimilisins Stígs.

Þorleifur sendi fjölmiðlum bréfið og sagðist taka nafn stúlkunnar út, en gleymdi því hins vegar. Þar er því fullt nafn hennar. Hann hafði ekki leyfi til að birta nafnið, að því er kom fram í viðtali við móður stúlkunnar í fréttum Útvarpsins í kvöld.

Tilefni bréfsendingarinnar var það að Vinstri grænir bókuðu gegn niðurskurði í fjárveitingum til unglingaheimila á borð við Stíg og Tröð, eftir að hafa fengið orðsendingu frá stúlkunni. Í bréfinu segir hún  að Stígur hafi verið sér lífsnauðsynlegur eftir áfall sem hún lenti í.

„Núna þjáist ég af áfallaröskun og félagskvíða og hef gert það lengi en aldrei hefur mér liðið svona vel þar sem að í fyrsta skiptið á ég trausta vini og að mínu mati er það Stíg að þakka," segir hin 16 ára gamla stúlka í bréfinu. Hún segir staði eins og Stíg ómetanlega fyrir unglinga sem eigi erfitt með að fóta sig í raunveruleikanum.

Á fundi velferðarráðs var lagt til að styrkir til fyrrnefndar áfangaheimila verði ekki verðbættir, en fulltrúar VG og Samfylkingar í ráðinu lögðu til að þeir yrðu verðbættir á milli áranna 2007 og 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert