Björg Magnúsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir að verði mikil fjölgun nemenda í Háskólanum um áramótin þurfi að huga að aðstöðu þeirra. „Í stærstu kúrsunum er setið í tröppunum í Háskólabíói,“ segir hún. Þrátt fyrir að nýjar byggingar hafi verið teknar í notkun fyrir rúmu ári sé enn húsnæðisskortur í skólanum. „Til dæmis hafa ekki öll nemendafélög við skólann aðstöðu,“ segir hún. Mögulega verði þó hægt að finna leiðir til þess að nemendur komist sem best fyrir.
Á fundi á fimmtudag þar sem ríkisstjórnin kynnti niðurskurð í endurskoðuðum fjárlögum var Geir H. Haarde forsætisráðherra spurður um framlög til háskóla, þar sem margir sæktu nú í skólana. „Það getur vel verið að það þurfi að þjappa fólki eitthvað saman, endurskipuleggja eitthvert nám og svo framvegis,“ sagði hann.
Jafnframt kom fram á fundinum að skera ætti niður framlög til LÍN. Með því ætti að nást milljarður í sparnað. Árið 2007 fékk LÍN 4,8 milljarða framlag úr ríkissjóði og tæpa sex milljarða í ár. Ekki hefur komið fram hvar eigi að skera niður hjá LÍN.
Björg segir niðurskurðinn áhyggjuefni og varla geti farið öðruvísi en svo að hann bitni á stúdentum á námslánum. „En það verður forvitnilegt að sjá þessa útreikninga,“ segir hún. elva@mbl.is