Draga á úr ferðakostnaði stjórnvalda á næsta ári, bæði ráðuneyta og Alþingis, samkvæmt sparnaðartillögum ríkisstjórnarinnar, sem lagðar voru fram á þingi í gær. Einnig verður dregið úr kostnaði við móttöku erlendra gesta Alþingis og kostnaði við fundi og móttökur.
Meðal annars er lagt til að fjárveiting til fastanefnda Alþingis lækki um rúmar 20 milljónir vegna lækkunar á ferðakostnaði nefnda erlendis og fækkunar á kynnisferðum fastanefnda innanlands. Auk þess er gert ráð fyrir hagræðingu í nefndastarfi.
Þá er lagt til að fjárveiting til alþjóðasamstarfs Alþingis verði lækkuð um 34 milljónir króna.Verður ferðum á fundi og ráðstefnur fækkað og dregið úr fjölda þátttakenda. Þá á að lækka útgjöld um 17 milljónir vegna móttöku erlendra gesta Alþingis og heimsókna erlendis á vegum forsætisnefndar og annars starfs á hennar vegum, svo og hvers konar kostnaði við fundi og móttökur.
Einnig á að ná fram 37 milljóna króna lækkun útgjalda með fækkun á innkomu varaþingmanna, afnámi verðlagshækkana á föstum greiðslum til þingmanna og lækkun á innlendum ferðakostnaði.
Fallið er frá tillögu um 10 milljóna tímabundið framlag til sérstakra ferðastyrkja til ráðuneyta á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2009.
En í tillögunum er einnig gert ráð fyrir 28 milljóna króna framlag til að mæta kostnaði vegna aukinna verkefna aðalskrifstofu forsætisráðuneytisins. Um er m.a. að ræða verkefni á sviði efnahags- og alþjóðafjármála og verkefni sem snúa að upplýsingaöflun og almannatengslum. Áformað er að fjölga um þrjú stöðugildi á skrifstofunni vegna þessa.