Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segist hallast að því, að hugsanleg aðild að Evrópusambandinu snerti svo víðtæka þjóðarhagsmuni, að leita eigi umboðs hjá þjóðinni í atkvæðagreiðslu, áður en aðildarumsókn sé lögð fram. Síðan verði málið borið að nýju undir þjóðina, eftir að skilmálar ESB hafa verið skýrðir.
Björn segir, að orðið „aðildarviðræður“ gefi alls ekki rétta mynd af því, hvernig samskiptum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við umsóknarríki er háttað. Í raun fari ekki fram neinar viðræður um aðild að Evrópusambandinu heldur sé rætt við stjórnendur ESB á grundvelli umsóknar, sem fyrir þá er lögð. ESB segi: Við höfum lögfest okkar stofnskrá og aðra bindandi sáttmála, þeir eru ekki til umræðu, heldur hvernig þig lagið ykkur að þeim og á hve löngum tíma.
„Þetta ferli minnir nokkuð á þá aðferð, sem sagt var, að Sovétmenn hefðu beitt á tímum kalda stríðsins: Við skulum semja við ykkur um það, sem ykkur tilheyrir, en þið hróflið ekki við hagsmunum okkar, þeir eru ákveðnir. (...) Við getum raunar tekið nærtækara dæmi, þegar sagt er hér heima fyrir: Við skulum starfa með ykkur í ríkisstjórn, ef þið breytið um stefnu gagnvart ESB, en við sláum ekki af okkar stefnu," segir Björn á heimasíðu sinni.
Hann segir, að innan Sjálfstæðisflokksins sé djúp sannfæring manna fyrir því, að ekki eigi að skerða fullveldið meira en orðið er. Auk þess sé ótti við, að áhugi ESB á, að Ísland gerist aðili, byggist á ásælni í auðlindir og áhrif á Norður-Atlantshafi. „Hinn almenni félagi í Sjálfstæðisflokknum bregst illa við telji hann, að vegið sé að þessari sannfæringu," segir Björn.