Búast má við því að innlánseigendur í Landsbankanum í Lúxemborg tapi gríðarlegum fjárhæðum við gjaldþrot bankans. Innlánin námu 700 milljónum evra eða tæpum 110 milljörðum króna.
Viðskiptavinir hans voru tiltölulega fáir en fjáðir Íslendingar og fyrirtæki og einnig útlendingar. Margir þeirra höfðu tekið lán með veði í inneignum sínum og voru aðeins 300 milljónir evra óveðsettar í bankanum. Fái fólkið ekki skuldajöfnun, stendur það uppi með lánaskuldbindingarnar en fær aðeins lögbundna innlánstryggingu, sem er 20.887 evrur, eða tæpar 3,3 milljónir króna.
Unnið er að því hörðum höndum að semja við yfirvöld í Lúxemborg um skuldajöfnunina en niðurstaða er ekki fengin. Talsmaður Fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg segir að það fari eftir því hvernig samið var um veðin hvort það gangi, en Fjármálaeftirlitið kemur ekki að þeim samningum.
Helstu kröfuhafar bankans voru Evrópski seðlabankinn og Landsbankinn hér heima. Bankinn hafði, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, fengið 2.000 milljónir evra að láni hjá Seðlabankanum í endurhverfum viðskiptum fyrir Landsbankann á Íslandi, en þau felast í því að selja einhverja eign s.s. skuldabréf og semja um leið um að kaupa hana aftur síðar.
Landsbankinn átti skuldabréf sem voru lánuð bankanum í Lúxemborg og notuð sem veð fyrir lánunum í Seðlabankanum. Rétt fyrir bankahrunið í byrjun október mat Seðlabankinn veðsafnið upp á nýtt og vildi aukin veð að upphæð um 400 milljónir evra fyrir láninu. Það samþykkti Landsbankinn hér heima ekki og bankinn fór í greiðslustöðvun.
Síðan hafa samningaviðræðurnar gengið út á að fá skilanefnd Landsbankans heima til að breyta 1.000 milljóna evra kröfu á Landsbankann úti í hlutafé. Hefði það tekist, hefðu innlánseigendur fengið greitt út.
Sá böggull fylgdi skammrifi að hefðu kröfur breyst í hlutafé, hefði skilanefndin samþykkt forgang Evrópska seðlabankans í þrotabúið. Því sagði skilanefndin nei. Landsbankinn í Lúxemborg sótti því um gjaldþrotaskiptin í gær.
Landsbankinn í Lúxemborg, sem er dótturfélag bankans hér heima, er fyrsti bankinn þar í landi til að fara í þrot frá gjaldþroti BCCI, Bank of Credit and Commerce International, árið 1991, samkvæmt Fjármálaeftirlitinu. 160 manns unnu hjá bankanum, þar af 35 Íslendingar. Yfirvöld í Lúxemborg eru ábyrg fyrir uppgjöri hans.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins svíður mönnum að ríkið tryggi ekki innlán þeirra Íslendinga sem áttu sparifé sitt í íslensku bönkunum ytra. Eignir bankans nemi 1.500 til 2.000 millj. evrum í útlánum sem dugi fyrir sparifénu. Til þess að svo megi verða þurfi skilanefnd Landsbankans hér heima að samþykkja að fá sínar kröfur borgaðar eftir að búið sé að greiða sparifjáreigendum.
Mjög gróflega reiknað má ætla að hver viðskiptavinur í bankanum hafi að meðaltali átt í honum rúmar 100 milljónir kr. Takist ekki að semja um skuldajöfnun, hverfur eignin en skuldirnar sitja eftir.