AFL stefnir Landsbanka og Landsvaka

mbl.is/hag

AFL Starfsgreinafélag hefur stefnt Landsbanka Íslands og Landsvaka fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.

Á vefsíðu Austurgluggans segir að AFL hafi tapað 170 milljónum króna í Landsbankanum í bankahruninu. Félagið krefst sundurliðaðs yfirlits yfir eignir peningamarkaðssjóða Landsbankans í september og október nú í haust.

AFL telur lög Alþingis um bann við málsókn á hendur bönkum og fjármálafyrirtækjum í greiðslustöðvun ekki standast og að ekki verði brotin bankaleynd þó þær upplýsingar sem krafist er verði veittar.

AFL hafði umtalsvert fé tilheyrandi sjúkrasjóðum félagsins í peningamarkaðssjóðum Landsbankans. Í októberlok kom í ljós í kjölfar uppgjörs að 170 milljónir króna voru tapaðar, en engar skýringar fylgdu uppgjöri né stoðgögn um rekstur sjóðanna. AFL vill fá að sjá slík gögn til að meta hvort félagið á bótakröfu á hendur bankanum og Landsvaka.

Framgangur málsins er mjög líklegur til að hafa fordæmisgildi fyrir aðra sem töpuðu fé í bankanum og Landsvaka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert