Álasa ekki Þorleifi fyrir bréfið

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Sverrir

Foreldrar stúlkunnar, sem skrifaði bréf um þjónustu unglingaheimilisins Stígs og sagt var frá í fjölmiðlum í gær að hefði fyrir misstök Þorleifs Gunnlaugssonar, borgarfulltrúa Vinstri grænna, ratað til fjölmiðla með fullu nafni, hafa sent bréf til fjölmiðla þar sem þeir greina frá afstöðu sinni til málsins.

Morgunblaðið sagði frá því í gær að Þorleifi hefði borist bréf frá stúlku sem á í félagslegum erfiðleikum og nýtur þjónustu unglingaheimilisins Stígs. Þorleifur hugðist taka nafn stúlkunnar út áður en hann sendi það fjölmiðlum en gleymdi því hinsvegar.

Í yfirlýsingu frá foreldrum stúlkunnar segir að reynt hafi verið að drepa umræðunni um niðurskurð borgaryfirvalda á fjárframlagi til unglingastarfs í borginni á dreif og öll athyglin beinst að mistökum Þorleifs. „Viðkomandi borgarfulltrúi hefur beðist afsökunar á nafnbirtingunni en augljóst er að þar var um mistök að ræða sem hann kom á framfæri við fjölmiðla.“

Foreldrarnir vilja taka það skýrt fram að umrætt bréf hafi verið sent fjölmiðlum með samþykki dóttur þeirra og einnig þeirra samþykki og vitund. Þannig sé í engu við borgarfulltrúann að sakast.

„Við álösum borgarfulltrúanum ekki fyrir eitt eða neitt í hans framgöngu. Þvert á móti þökkum við fyrir einarðan stuðning hans við brýnt málefni. Umræðan um nafnbirtingu má ekki verða til að fólk missi sjónar á mikilvægi málefnisins sjálfs, mikilvægri umræðu um úrræði fyrir unglinga sem lenda í tímabundnum erfiðleikum. Við skorum á fjölmiðla að taka þetta málefni föstum tökum og fjalla um kjarna málsins, hvernig standa á að unglingastarfi í borginni.“

Í umræddu bréfi segir meðal annars:"…Ég sendi þér þetta bréf til að sýna þér andúð mína á því máli að skerða niður Stíg og Tröð þar sem að Stígur hefur verð mér lífsnauðsynlegur eftir áfall sem ég lenti í.

Ég er 16 ára og búin að vera á Stíg frá því í byrjun síðasta árs og hefur það hjálpað mér meira en orð fá lýst. Núna þjáist ég af áfallaröskun og félagskvíða og hef gert það lengi en aldrei hefur mér liðið svona vel þar sem að í fyrsta skiptið á ég trausta vini og að mínu mati er það Stíg að þakka.

Þess vegna bið ég þig um að hugsa, ef ekki bara smá, um þetta mál og vonandi koma í veg fyrir að hætt verður með Stíg og Tröð því að svona staðir eru ómetanlegir fyrir unglinga sem eiga erfitt með að fóta sig í raunveruleikanum."

Á fundi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á föstudag var lagður til verulegur sparnaður í unglingasmiðjum og breytingar sem segir í bókun minnihlutans að jafnt notendur, foreldrar og starfsmenn telji að skaði starfið. Í bókun minnihlutans kemur ennfremur fram að tillögurnar muni leiða til þess að þeir unglingar, sem á hverjum tíma hafa haft þörf fyrir og fengið þjónustu í unglingasmiðjunum, muni ekki fá þjónustu við hæfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert