350 milljónir í ráðgjöf og almannatengsl

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Björgvin Sigurðsson, viðskiptaráðherra hafa leitað …
Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Björgvin Sigurðsson, viðskiptaráðherra hafa leitað til innlendra og erlendra sérfræðinga í kjölfar bankahrunsins. mbl.is/Brynjar Gauti

Stjórnvöld hafa varið 350 milljónum króna í erlenda og innlenda ráðgjöf og nauðsynlegar aðgerðir ríkisins vegna neyðarástands á fjármálamarkaði, í framhaldi af falli þriggja stærstu banka Íslands. Í frumvarpi til fjáraukalaga er sótt um 250 milljóna króna heimild vegna þessa en að auki er áformað að 100 milljónum króna af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar verði varið til að greiða kostnað við ráðgjöfina.

Um er að ræða kostnað ríkissjóðs við sérfræðiþjónustu og ráðgjöf vegna endurreisnar íslenska fjármálakerfisins og alþjóðasamskipta, auk almannatengsla. Þá snýr vinan sérfræðinga jafnframt að ráðgjöf um ýmis lögfræðileg álitaefni sem eru mikilvæg með hliðsjón af  þeim miklu hagsmunum sem eru í húfi fyrir ríkið.

Þau erlendu ráðgjafafyrirtæki sem helst hafa komið að þessari vinnu fyrir íslensk stjórnvöld eru breska lögmannsstofan Lovells LLP, lögmannsstofan Logos, alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey & Company AS og finnski ráðgjafinn Kaarlo Vilho Jännäri.

Athygli vekur að í fjárlagafrumvarpi næsta árs og breytingartillögum meirihlutans er aðeins gert ráð fyrir 28 milljóna króna framlagi til að mæta kostnaði vegna aukinna verkefna aðalskrifstofu forsætisráðuneytisins, á sviði efnahags- og alþjóðafjármála og verkefna sem snúa að upplýsingaöflun og almannatengslum. Þetta er innan við tíundi hluti þess fjármagns sem varið hefur verið í ráðgjöf og almannatengsl á þessu ári. Á næsta ári er áformað að fjölga um þrjú stöðugildi vegna þessa.

Heildarkostnaður vegna aukinna verkefna verður þó að sögn nokkuð meiri, en með breyttu skipulagi, hagræðingu og nýjum áherslum ætlar forsætisráðuneytið að 28 milljóna króna aukaframlag dugi vegna verkefnisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert