Lögreglan á Snæfellsnesi fékk á tíunda tímanum í kvöld tilkynningu um að bíll hefði oltið undir Ólafsvíkurenni.
Að sögn lögreglu voru tildrög þessa þau, að tveir bílar voru kyrrstæðir á veginum en annar bíllinn var rafmagnslaus og verið var að starta honum með rafmagni úr hinum bílnum. Þá kom þriðji bíllinn að og virðist ökumaður hans hafa séð hina bílana of seint og beygt snögglega með þeim afleiðingum að bíll hans fór á hvolf. Leiðindaveður er í Ólafsvík og gengur á með byl.
Ökumaðurinn og farþegi í bílnum voru fluttir á heilsugæslustöðina í Ólafsvík til skoðunar en meiðsli þeirra reyndust ekki alvarleg.