Fallið frá fjölgun leiguíbúða

Formenn stjórnarflokkanna, þau Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún …
Formenn stjórnarflokkanna, þau Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, kynntu 17. febrúar 2008, yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir ætlaðar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga. mbl.is/Árni Sæberg

Fjármagn til félagslegra leiguíbúða verði skorið niður um helming á næsta ári, samkvæmt tillögum meirihluta fjárlaganefndar Alþingis. Í stað 2.200 milljóna króna verður framlagið 1.100 milljónir. Framlagið miðast því við 400 íbúðir á ári í stað 750 eins og ríkisstjórnin lofaði í tengslum við gerð kjarasamninga í vor.

Aukin eftirspurn hefur verið eftir lánum hjá Íbúðalánasjóði til leiguíbúða, m.a. vegna samdráttar á fasteignamarkaði.

Umrædd lán eru veitt þeim sem leigja íbúðirnar til einstaklinga sem uppfylla tiltekin skilyrði um tekju- og eignamörk. Þau bera 3,5% vexti og greiðir ríkissjóður muninn á milli almennra útlánsvaxta íbúðalánasjóðs, sem er áætlaður 1,2% á næsta ári.

Félagsmálaráðherra fór í fjárlagafrumvarpi næsta árs fram á 1,1 milljarðs króna hækkun á fjárheimild ráðuneytisins til að niðurgreiða vexti af lánum sem veitt verða á næsta ári til byggingar samtals 750 leiguíbúða.

Þessi framlög til að efla leiguíbúðamarkaðinn voru ákveðin til að standa við loforð sem ríkisstjórnin gaf í febrúar síðastliðnum til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 17. febrúar 2008 segir; „Aukinni eftirspurn eftir leiguhúsnæði verði mætt með rýmri veðheimildum á lánum til leiguíbúða og fjölgun lánsvilyrða með niðurgreiddum vöxtum til félagslegra leiguíbúða í 750 lán á ári í fjögur ár frá og með árinu 2009.“

Nú hefur meirihluti fjárlaganefndar lagt til að fallið verði frá áformunum og aðeins veittir fjármunir vegna 400 leigubúða. Framlagið verður því 1.100 milljónir en ekki 2.200 milljónir eins og lofað var í tengslum við gerð samninga á almennum vinnumarkaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert