Fangelsinu á Akureyri lokað hluta ársins

Fangelsinu á Akureyri verður lokað hluta næsta árs vegna hagræðingar, samkvæmt tillögum meirihluta fjárlaganefndar Alþingis. Nefndin segir að fjölga eigi föngum á Litla-Hrauni meðan á lokuninni á Akureyri stendur. Með þessu móti á að spara 55 milljónir króna. Útilokað er að mæta lokun á Akureyri með fjölgun á Litla-Hrauni, segir fangelsismálastjóri.

„Það kemur ekki flatt upp á mig að loka eigi tímabundið fangelsinu á Akureyri en því verður þá að mæta með öðrum hætti en fjölgun á Litla-Hrauni. Það er ekki hægt að fjölga föngum þar, því öll pláss eru nýtt á Litla-Hrauni nánast allt árið um kring. Í fangelsinu er pláss fyrir 77 fanga en að undanförnu hafa þrír klefar verið tvísettir. Nýtingin er með öðrum orðum 100% og stundum rúmlega það,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri.

Páll bendir á að rekstur fangelsisins á Akureyri kosti 51 milljón króna á ársgrundvelli. Jafnvel þó að fangelsinu yrði lokað allt árið, stæðu enn fjórar milljónir útaf. Auk þess bendir Páll á að það sparar ekkert að loka einu fangelsi og flytja fanga í annað. Hver fangi kosti um 24 þúsund krónur á sólarhring, hvort heldur er norðan heiða og sunnan.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2009 og breytingartillögum meirihlutans eru ætlaðar 1.071 milljón króna í fangelsismál á næsta ári. Að auki er gert ráð fyrir sértekjum upp á 56,6 milljónir króna. Sértekjur hafa að stærstum hluta byggst upp á bílnúmeraframleiðslu en bílasala hefur hrunið og því litlar sem engar tekjur af framleiðslu bílnúmera að hafa. Þá hefur samningum um gluggaframleiðslu verið rift og aðrir sértekjumöguleikar hafa rýrnað mjög í kreppunni.

„Við þurfum að sæta niðurskurði eins og aðrar stofnanir og getum hagrætt upp að ákveðnu marki. En ekki nema að ákveðnu marki. Það er ljóst að óbreyttum rekstri getum við ekki haldið úti miðað við fjárlagatillögur. Og þar sem langstærstur hluti okkar rekstrar er fangelsin, þá hlýtur að koma til skoðunar hvort og þá hvaða fangelsum við lokum,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar harma í nefndarálitum sínum niðurskurð á fé til fangelsismála.

„Upplýsingar komu fram um að fallið hefði verið frá því að byggja nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu og að heildaruppbygging fangelsa yrði í stað þess á Litla-Hrauni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir tímabundnu framlagi til uppbyggingar á Litla-Hrauni að fjárhæð 350 milljónir króna en í hagræðingartillögun ráðuneytisins er gert ráð fyrir að framlagið lækki um 250 milljónir og að af þeim 100 milljónum sem eftir eru fari 80 milljónir í að styrkja rekstur Fangelsismálastofnunar sem er nauðsynlegt vegna aukins fjölda fanga. 2. minni hluti hefur ítrekað bent á að núverandi húsakostur fangelsa í landinu er óviðunandi. Benda má á að starfsemi Hegningarhússins við Skólavörðustíg hefur um langt skeið verið rekin á undanþágum frá heilbrigðiseftirlitinu. Leggur 2. minni hluti áherslu á að gera þurfi átak í uppbyggingu fangelsisaðstöðu í landinu. Löggæslan er ein af grunnstoðum réttarríkisins og þarf að geta sinnt starfsemi sinni á öruggan hátt. 2. minni hluti leggur áherslu á að fjárveitingar til löggæslumála verði að tryggja eðlilega starfsemi lögreglunnar,“ segir Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks í nefndaráliti sínu.

Frá vígslu fangelsisins á Akureyri í ágúst 2008 eftir endurbætur.
Frá vígslu fangelsisins á Akureyri í ágúst 2008 eftir endurbætur.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert