Tekjuskattur verður hækkaður um 1,25 prósentur, úr 22,75% í 24%, og sveitarfélögum verður heimilt að hækka útsvar um 0,25 prósentur, úr 13,03% í 13,28% samkvæmt nýju frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem lagt var fram á Alþingi í kvöld. Samtals verður skatthlutfall í staðgreiðslu því allt að 37,28%.
Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að markmiðið með hækkun tekjuskatts sé tvíþætt. Annars vegar sé hækkun um 1% til að mæta versnandi afkomu ríkissjóðs og er áætlað er að sú hækkun skili ríkissjóði nálægt 7 milljörðum króna. Hins vegar sé hækkun um 0,25% sem sé ætlað að fjármagna sérstakt 1 milljarðs króna framlag ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og greiðslur ríkissjóðs á fasteignagjöldum eða samtals um nálægt 1,5 milljörðum króna.
Áætlað er að hækkun útsvarsins geti skilað sveitarfélögum allt að 2 milljörðum króna í útsvarstekjur miðað við það að öll sveitarfélög landsins fullnýti heimildina. Almennur frestur til að taka ákvörðun um útsvar komandi tekjuárs er samkvæmt lögum 1. desember en í frumvarpinu er lagt til til að sveitarfélög hafi frest til loka árs 2008 til að taka ákvörðun um útsvarsprósentu og tilkynna hana til fjármálaráðuneytisins.