Ingibjörg: Orsökin liggur í ofsafrjálshyggjunni

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Frikki

„Við [Samfylkingin] orsökuðum ekki það hrun sem yfir okkur kom. {...} Stærsta orsökin liggur í þeirri ofsafrjálshyggju sem að hér réði ríkjum um langan tíma, ekki síst á síðasta kjörtímabili,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Ingibjörg Sólrún ávarpaði kaffiboð 60+ á Grand Hótel í dag. Hún sagði að þrátt fyrir að erfiðir tímar væru framundan geti Íslendingar vel komist í gegnum þá sýni þeir þolgæði, æðruleysi og skynsemi.

Hún segir að vandinn teygi anga sína aftur til ársins 2001 þegar bankarnir voru einkavæddir án þess að þeim yrðu sett mörk og eignaraðildin dreifð. Hún benti á að ríkisstjórnin hafi einkavætt bankana með þeim afleiðingum að tiltölulega fáir aðilar eignuðust þá.

„Fjármálakerfið okkar stækkaði og óx í rauninni samfélaginu yfir höfuð,“ segir Ingibjörg og bætir við að þetta gerist á sama tíma og verið sé að höndla með íslenska krónu „sem er örmynt í samfélagi þjóðanna.“

Hún segir að eigendur og stjórnendur bankanna hafi farið of glannalega fram. Ábyrgðin sé fyrst og fremst þar.

Fríar sig ekki ábyrgð

Hún neitar því hins vegar ekki að stjórnvöld og þingmenn hafi mátt vera meira vakandi. „Auðvitað getum við ekki undanskilið okkur um sök í málinu. Það má vel halda því fram að við hefðum kannski átt að vera meira miklu meira vakandi fyrir því sem var að gerast í kringum okkur.“

Ingibjörg Sólrún segist ekki ætla að fría sig ábyrgð. Hún ítrekar hins vegar að núverandi vandi sé fyrst og síðast þeim að kenna sem áttu og ráku bankana. Þeir hafi ekið ofan í skurð. Þeir verði því að bera ábyrgð.

Ingibjörg Sólrún segir hins vegar að þeir hafi unnið í erfiðu umhverfi og vísar fyrst og fremst í veika stöðu krónunnar.

Hún segir að aðstæðurnar séu erfiðar en mikilvægt sé að Íslendingar nái að vinna sig út úr þeim.

Stjórnvöld verða að segja satt að sögn Ingibjargar. Þau séu nú að takast á við mikinn fjárlagahalla og menn verði að gera allt sem í þeirra valdi standi til að minnka hallann.

Mikilvægt að standa vörð um velferðina

„Við reynum eins og kostur er við þessar aðstæður að verja velferðina, því það er erindi okkar sem jafnaðarmanna. Það var erindi þegar við fórum inn í ríkisstjórnina árið 2007 að byggja upp velferðina,“ segir Ingibjörg Sólrún. Nú sé það hlutverk Samfylkingarinnar að standa vörð um velferðina. Ekki hægt að setja mikið í uppbyggingu á velferðarþjónustunni. Því reyni Samfylkingin að verja kjör þeirra sem hafi þau lökust.

Hún bendir hins vegar á að Íslendingar megi ekki gleyma sér í erfiðleikunum, því ný landssýn sé framundan. Ekki sé svo langt að bíða að hér verði hægt að búa til betra land.

Þjóðin sé ung. Hér sé öflugt  vinnandi fólk og vel menntað. Auk þess eigi Íslendingar gjöfular auðlindir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert