Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál Evrópusambandsins, segir að ekki sé útilokað að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu strax á næsta ári. Segir hann á vefnum Homes overseas ljóst að hreyfing sé á málinu á Íslandi.
Segir á vefnum að hingað til hafi Ísland viljað standa fyrir utan ESB en það hafi breyst með kreppunni í landinu. Er fjallað um Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins í greininni og að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segi að Ísland gæti hafið ESB viðræður ef kringumstæðurnar væru réttar.
Fjölmiðlafulltrúi Rehn, Anna-Kaisa Itkonen, segir í samtali við BBC að ef Íslendingar ákveði að sækja um aðild þá muni viðræðurnar ganga hraðar fyrir sig heldur en hjá öðrum ríkjum þar sem tengsl Íslands við ESB séu sterk.