Reynir Traustason ritstjóri DV segir bull að óeðlilegar ástæður hafi legið að baki því að ákveðið var að birta ekki grein Jóns Bjarka Magnússonar um um Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóra Landsbankans, í blaðinu þann 6. nóvember. Fréttin hafi einfaldlega verið gömul og ekki bætt neinu við það sem fram hafði komið á Eyjunni.
„Við erum á hverjum degi að velja og hafna fréttum og þetta var einfaldlega gömul frétt,” sagði Reynir er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í morgun. „Hún bætti engu við það sem fram var komið. Svona er þetta bara. Nú síðast á fimmtudag ákváðum við að birta ekki frétt frá sama blaðamanni þar sem fjallað var um mótmælendur."
Spurður um staðhæfingar Jóns Bjarka um að hann hafi sagt sterka aðila úti í bæ hafa komið í veg fyrir birtingu greinarinnar og jafnvel haft í hótunum við hann, segist Reynir ekki geta tjáð sig um það sem gerist innanhúss á ritstjórn DV en að umrædd ákvörðun hafi algerlega verið tekin á faglegum forsendum.
Fréttin sem um ræðir er birt á fréttavef DV í dag.