„Þetta er svo sem í takt við það sem búast mátti við en engu að síður mikil vonbrigði,“ segir Bárður Ragnar Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna. Ríkisstjórnin hefur í frumvarpi til fjáraukalaga, farið fram á 125 milljóna króna framlag til að greiða bætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn. Fyrst og fremst er um að ræða bætur til drengja sem vistaðir voru á Breiðavík um og eftir miðja síðustu öld.
Í frumvarpinu segir að fjárhæðin sé ætluð til að greiða sanngirnisbætur til þeirra sem hafa orðið fyrir varanlegu tjóni á vistheimilum fyrir börn og kostnað úrskurðarnefndar í þeim málum, enda liggi fyrir skýrsla frá svokallaðri Breiðavíkurnefnd um að óforsvaranlega hafi verið staði að málum við vistun á stofnun eða heimili eða í rekstri þess.
Skilyrði bótagreiðslu er að umsækjandi hafi hlotið varanlegt tjón og leiði líkur að því að það sé vegna vistunar á stofnun eða heimili sem undir lög um Breiðavíkurnefndina fellur, illrar meðferðar eða ofbeldis afhendi starfsmanna þar eða annarra vistmanna. Sérstakri nefnd er ætlað að taka afstöðu til bótakrafna.
Innan við 100 manns eru í þeim hópi sem á bótarétt samkvæmt þessari skilgreiningu. Verst ku ástandið hafa verið á árunum 1952 til 1972. Á fjórða tug manna sem dvöldu á Breiðavík á þeim árum eru látnir. Samkvæmt drögum að frumvarpi sem samið var í forsætisráðuneytinu renna bótagreiðslur til aðstandenda þeirra sem dvöldu á Breiðavík og eiga bótarétt en eru látnir.
Bárður R. Jónsson, formaður Breiðavíkursamtakanna segir það í raun það eina jákvæða sem er að finna í frumvarpsdrögunum.
„Við getum ekki sætt okkur við að þurfa að mæta fyrir nefnd sem skipuð er geðlæknum og lögfræðingum. Mælikvarðinn sem settur er, finnst okkur óviðunandi. Ég hef áður vísað til sambærilegra mála í Noregi og uppgjörs þar og geri enn. Ég tel að það ætti að greiða hverjum og einum sem þarna var vistaður 15 milljónir króna að lágmarki, það eigi eitt yfir alla að ganga. Þetta eru menn sem aldrei hafa náð að fóta sig í lífinu. Leiddust út í áfengis- og fíkniefnaneyslu, afbrot og enduðu í fangelsum. Sumir eru þar enn og aðrir inn og út af geðdeildum,“ segir Bárður R. Jónsson.
Hann segir að ekkert samráð hafi verið haft við Breiðavíkursamtökin eftir að drög að frumvarpi um svokallaðar sanngirnisbætur vegna misgjörða við vistun á opinberum stofnunum eins og Breiðavíkurheimilinu komust í umræðuna. Forsætisráðuneytið átaldi að samtökin hefðu farið með frumvarpið í fjölmiðla án samþykkis eða samráðs við ráðuneytið.
„Ég sendi fyrirspurn um stöðu málsins í byrjun mánaðar en hef engin svör fengið enn. Þeir hafa ekkert rætt við okkur frá 11. ágúst síðastliðnum. Miðað við orðalag fjáraukalaganna þá býst ég ekki við að neitt hafi breyst frá því í sumar. En samráðinu lauk þegar frumvarpsdrögin komust til fjölmiðla,“ segir Bárður R. Jónsson.
Eins og áður segir er sótt um 125 milljónir króna í fjáraukalögum vegna bótagreiðslna og reksturs úrskurðarnefndar. Að því gefnu að 100 einstaklingar eigi rétt til bóta, kemur um eða innan við ein milljón króna í hlut hvers fyrir sig.
„Hvers konar uppgjör yrði það? Mér finnst greinilegt á öllu að athugasemdir okkar við frumvarpsdrögin hafi ekki verið teknar til greina. Stjórnvöld vilja sleppa sem billegast frá þessu. Þetta breytir engu en ég vil að menn geti sagt að bæturnar breyti einhverju, gefi þeim sem urðu fyrir tjóni, nýja von,“ segir Bárður R. Jónsson.