Eftirlaunafrumvarp komið fram

Frá Alþingi
Frá Alþingi mbl.is/Ómar Óskarsson

Eftirlaunafrumvarpi hefur nú loks verið dreift á Alþingi en formenn stjórnarflokkanna höfðu lýst því yfir að það væri væntanlegt. Markmiðið er koma á meira samræmi í lífeyrismálum ráðamanna og almennings. Helstu breytingar eru eftirfarandi samkvæmt greinargerð:
Í fyrsta lagi er lagt til að aldurslágmark alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara til töku eftirlauna verði hækkað úr 55 árum í 60 ár.
   

 Í öðru lagi er lagt til að réttindaávinnsla hjá alþingismönnum, ráðherrum og hæstaréttardómurum verði eftirleiðis 2,375% fyrir hvert ár í embætti og samsvarandi fyrir hluta úr ári, í stað 3% ávinnslu hjá alþingismönnum og 6% ávinnslu þegar ráðherrar og hæstaréttardómarar eiga í hlut eins og í núgildandi lögum. Samhliða er lagt til að fellt verði á brott ákvæði um að skylda til greiðslu iðgjalda falli niður þegar fullum réttindum samkvæmt lögunum er náð.
   

 Í þriðja lagi er lagt til að girt verði fyrir það að þessir hópar njóti samtímis eftirlauna og launa frá ríkinu. Er það gert með því að kveða á um að launagreiðslur frá hinu opinbera komi að fullu til frádráttar eftirlaunum á grundvelli laganna. Gert er ráð fyrir að skerðingarregla núgildandi laga eigi áfram við um launagreiðslur vegna starfa hjá öðrum aðilum.
    Í fjórða lagi er lagt til að sérákvæði um eftirlaunakjör forsætisráðherra verði felld á brott þannig að um fyrrverandi forsætisráðherra gildi eftirleiðis sömu reglur og um aðra ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert