Elva Ragnarsdóttir, sem býr í Lundi í Svíþjóð, segist hafa fundið skjálftann vel en hann hafi samt ekki verið neitt rosalegur. Gömul kona sem býr beint á móti henni hélt að eitthvað hefði dottið ofan á hús sitt. Sú veit ekki til þess að jörð hafi nokkurn tímann skolfið þarna áður.
Það er stutt síðan Elva var spurð hvernig hún hefði það í Svíþjóð. Hún svaraði því þá til að hún „væri að minnsta kosti laus við jarðskjálfta“. Það breyttist í morgun. „Ég vaknaði við þetta,“ segir hún, „og ég sá að ljós kviknuðu í húsunum í kringum mig þannig að fólk fann þetta vel. Ég held þetta sé stærsti skjálfti sem hefur komið hérna í heila öld.“
Elva býr í nýbyggðu húsi, sem er þar af leiðandi í traustari kantinum og hún segist ekki sjá að neitt hafi farið af stað í hillum hjá sér. „Þetta var mjög skrítið þó að skjáltinn hafi ekki verið neitt rosalegur,“ segir hún.