Helga Sigrún gagnrýnir Bjarna

Helga Sigrún Harðardóttir.
Helga Sigrún Harðardóttir. mynd/sudurland.is

Helga Sigrún Harðardóttir, sem tók sæti á Alþingi nýlega fyrir Framsóknarflokkinn í Suðurkjördæmi þegar Bjarni Harðarson sagði af sér þingmennsku, gagnrýnir Bjarna harðlega á bloggsíðu sinni í dag.

„Hvenær fáum við frið, Bjarni Harðarson? Telurðu ekki að þú hafi unnið flokknum nægan skaða nú þegar? Þú, sem gagnrýndir harkalega þau vinnubrögð sem þú sjálfur hefur gerst sekur um margoft, bæði með bakstungum úr launsátri, trúnaðarbroti þar sem þú segir eingöngu frá þinni hlið mála og dylgjum um okkur sem eftir sitja.  Eða á ekki skilja skrif þín og ítrekaðar einshljóðfærissinfóníur þínar þannig að einu heiðarlegu mennirnir sem börðust gegn meintu flokkseigendafélagi séu farnir? Og við hin sem eftir sitjum séum strengjabrúður? Étt´ann sjálfur.

Það ríkir friður innan Framsóknarflokksins um þessar mundir og þingflokkurinn og helstu trúnaðarmenn vinna nú hörðum höndum að því að leita skynsamlegra lausna fyrir íslenskt samfélag á hugmyndafræði sem byggir á jöfnuði og samvinnu. Ófriðurinn er allur utan við gluggana, fólginn í samsæriskenningum manns sem varð sjálfum sér að fjörtjóni með vinnubrögðum sem hann hafði sjálfur gagnrýnt manna hæst. Um það vitna fjölmargir pistlar á hans eigin síðu," segir Helga Sigrún.

Hún segist einnig spyrja sig um það hversu vel Guðni Ágústsson hafi verið í stakk búinn að standa undir hlutverki sínu sem formaður flokksins og hvort hann hafi ekki lagt sjálfur, með dyggri aðstoð Bjarna sjálfs, drög að eigin falli?

„Ýmsir flokksmenn ákváðu eftir ítrekaðar tilraunir til að ræða málin við sinn formann að tala við hann í gegnum fjölmiðla. Segir það mönnum eitthvað? Ég varð vitni að því þegar menn voru kallaðir á teppi formannsins ef þeir höfðu frumkvæði að því að birta eigin hugmyndir án þess að formaðurinn hefði lagt blessun sína yfir þær. Sumum sagt að hætta að skrifa í blöðin. Öðrum sagt að formaðurinn réði. Punktur. Og fylgið féll," segir Helga Sigrún, sem var í þriðja sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi við síðustu kosningar á eftir Guðna Ágústssyni og Bjarna Harðarsyni.

Bloggsíða Helgu Sigrúnar Harðardóttur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert