Í gæsluvarðhald vegna smygls á e-töflum

Talsvert magn af e-töflum fundust við tolleftirlit
Talsvert magn af e-töflum fundust við tolleftirlit mbl.is/Kristinn

Átján ára piltur hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 22. desember að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fjórir aðrir voru úrskurðaðir í farbann. Fimmmenningarnir, sem allir eru pólskir, eru grunaðir um aðild að fíkniefnamáli sem snýst um innflutning á talsverðu magni af e-töflum.

Það voru tollyfirvöld sem fundu e-töflurnar en þær voru sendar hingað frá Póllandi. E-töflurnar voru haldlagðar í síðustu viku, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni.

Mennirnir hafa allir verið búsettir á Íslandi í einhvern tíma og eru allir heldur ungir að árum að sögn Karls Steinars Valssonar hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ekki fæst uppgefið hvort fleiri séu grunaðir um að vera viðriðnir málið.  Rannsóknin er að sögn Karls Steinars á algjöru frumstigi.

Lögregluyfirvöldum í Póllandi hefur verið tilkynnt um málið og er það einnig unnið í samvinnu við Europol eins og önnur mál sem upp koma vegna smygls á eiturlyfjum. Mennirnir hafa ekki komið við sögu lögreglunnar á Íslandi áður og fæst ekki uppgefið hvort þetta sé fyrsti skammturinn sem þeir smygla til landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert