Nýi Landsbankinn hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir, að þar á bæ hafi ekki verið hlutast til um fréttaflutning DV með því að krefjast þess að birting fréttar um Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra, yrði stöðvuð.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:
„Vegna umfjöllunar í Kastljósi Sjónvarpsins þann 15. desember þar sem fjallað var um ástæður þess að DV birti ekki frétt um Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóra, vill Landsbankinn (NBI hf.) koma eftirfarandi á framfæri.
Ekki er rétt sem komið hefur fram að Landsbankinn (NBI hf) hafi hlutast til um fréttaflutning DV með þeirri kröfu um að birting fréttar um Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra gamla Landsbankans, yrði stöðvuð.
„Hvorki fyrrverandi stjórnendur né stærstu hluthafar gamla Landsbankans hafa á nokkurn hátt hlutast til um málefni nýja bankans" segir Elín Sigfúsdóttir bankastjóri Landsbankans."