Katrín Jakobsdóttir, þingmaður VG, sagðist á þingi í dag óttast að framin yrðu óafturkræf spjöll á menntakerfinu með miklum niðurskurði. Áætlað er að draga úr framlögum til mennta- og menningarmála um 4,4 milljarða króna og þar með fresta öllum rannsóknarsamningum við háskóla.
Katrín sagði að ef menntun ætti að vera leiðin úr kreppunni hlyti þetta að vera alvarlegt mál.
Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar Alþingis, sagði þyngra en tárum tæki að þurfa að skera niður í menntamálum. Það væri óskandi að nóg væri að peningum en svo væri því miður ekki. Staðan væri grafalvarleg og á henni yrði að taka en ekki vera í vinsældakeppni á Alþingi. Skuldetning í dag kallaði á skatta á morgun.