„Við höfum ákveðið að hefja könnunarviðræður við hugsanlega aðra kaupendur [orkunnar, innsk. blm.] en Alcoa. Það þýðir hins vegar ekki að við séum að loka á Alcoa, alls ekki,“ segir Franz Árnason, stjórnarformaður Þeistareykja ehf. sem vinnur að orkunýtingu á jarðhitasvæðum á Norð-Austurlandi ásamt Landsvirkjun.
Fréttablaðið greindi frá því í gær að könnunarviðræður við önnur fyrirtæki en Alcoa, væru hafnar. Frans segir fyrirtæki sem framleiðir efni til nýtingar sólarorku hafa sýnt því áhuga að kaupa orkuna. Sérstök nefnd á vegum Landsvirkjunar og Þeistareykja hefur verið skipuð til þess að kanna möguleikann á sölu orkunnar til annarra en Alcoa. Í starfshópnum eru Edvard Guðnason og Jón Sveinsson fyrir hönd Landsvirkjunar og Franz Árnason og Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, fyrir hönd Þeistareykja ehf. Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. hafa ákveðið að ganga til könnunarviðræðna við fyrirtæki sem hafa áhuga á því að kaupa orku frá jarðhitavirkjunum.
Vinna við orkunýtingu á jarðhitasvæðunum byggðist fram til 1. nóvember á þessu ári á því að orkan yrði seld til álvers Alcoa á Bakka við Húsavík. Þá rann viljayfirlýsing um samstarfið út og frá þeim tíma hafa möguleikar opnast á því að tala við hugsanlega aðra kaupendur orkunnar.