Með boðaðri skerðingu á kjörum lífeyrisþega er ríkisstjórn Íslands að ganga gegn lögum þeim sem sérstaklega voru sett lífeyrisþegum til verndar við þær aðstæður sem nú hafa skapast í þjóðfélaginu. Þetta kemur fram í ályktun frá framkvæmdastjórn Öryrkjabandalagsins.
„Í stað þess að virða þessi lög og forgangsraða í anda velferðarþjóðfélags er nú fyrirhugað að bæta ekki verðbætur að fullu. Þetta á við um meira en 30 þúsund lífeyrisþega. Til þess að bæta verðtryggingu að fullu þarf að bæta við 2,5 milljörðum eftir skatta (nettó).
Öryrkjabandalag Íslands mótmælir þessari aðför harðlega og skorar á ríkisstjórnina að hverfa að fullu og öllu frá henni."