Ég undrast hvað Íslendingar eru friðsamir, sagði Margrét Kristín Blöndal sem mótmælti ásamt móður sinni Sólveigu Hauksdóttur fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun. Hún segir ótrúlegt að enginn hafi tekið stein upp úr götunni. Hún segir að mótmælin geti orðið ófriðsamleg. Kannski sé ríkisstjórnin að bíða eftir því.
Um tvöhundruð mótmælendur stilltu sér uppvið Ráðherrrabústaðinn í morgun og ætluðu að varna ráðherrum inngöngu á ríkisstjórnarfund. Lögreglan hafði hinsvegar varann á og gerði ráðherrunum kleift að koma gegnum garðinn og inn um bakdyrnar. Börn á leikskólanum Tjarnarborg fylgdust spennt með þar til dregið var fyrir gluggana að beiðni lögreglu. Mótmælendur færðu sig flestir um set og fóru inn í garð hússins við hliðina og hrópuðu að ráðherrum þar sem þeir klöngruðust yfir svellbunka á fundinn.
Inn um rassgatið, hrópuðu mótmælendur sem fannst lágt risið á ríkisstjórninni þar sem hún staulaðist um garðinn í lögreglufylgd. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra sagði dapurlegt að mótmælendur reyni að meina á þennan hátt lýðræðislega kjörnum fulltrúum fólksins að komast á sinn vinnustað.