Siv býður sig fram til embættis varaformanns

Siv Friðleifsdóttir
Siv Friðleifsdóttir

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis varaformanns Framsóknarflokksins en á flokksþingi Framsóknarflokksins 16.-18. janúar n. k. verður ný forysta flokksins valin. Valgerður Sverrisdóttir gegndi varaformannsembættinu þar til í síðasta mánuði er hún tók við sem formaður flokksins eftir að Guðni Ágústsson sagði af sér.

Frjálshyggjan sá gullkálfur sem dansað var í kringum

Á vef Sivjar kemur fram að hún telji ástæðurnar fyrir fylgistapi Framsóknarflokksins í  síðustu alþingiskosningum séu fleiri en ein.

„Í tólf ára stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum tókst flokknum ekki nægjanlega vel að leggja áherslu á þann hugmyndafræðilega mun sem er á þessum flokkum.

Síðustu árin var frjálshyggjan orðin sá gullkálfur sem hluti þjóðarinnar dansaði í kringum ýmist viljugur eða óviljugur.

Afleiðingarnar blasa nú hvarvetna við.

Innbyrðis átök hafa einnig reynst flokknum dýrkeypt.

Menn hljóta að hafa lært af þeim mistökum.

Þjóðin stendur á tímamótum.

Mörg verkefni eru framundan í íslenskum stjórnmálum.

Þjóðin þarf að öðlast sjálfstraust að nýju og hefja sókn til farsælla samfélags.

Ljóst er að erfiður tími fer í hönd og mikil vinna, en í henni felast einnig mörg tækifæri.

Ég er reiðubúin að taka þátt í þeirri vinnu af fullum krafti.

Framsóknarflokkurinn stendur einnig á tímamótum.

Hann þarf að tvöfalda fylgi sitt frá síðustu alþingiskosningum þannig að hann verði áfram sú kjölfesta í stjórnmálum sem hann hefur lengi verið.

Hann þarf að gera skýra grein fyrir hvert hann stefnir og endurmeta stefnuna í ljósi breyttra aðstæðna þótt grundvöllurinn sem flokkurinn byggir á sé óbreyttur.

Fólk sem um sinn hefur horfið frá stuðningi við flokkinn þarf að laða til fylgis við hann á ný og haga flokksstarfinu þannig að það finni sig heima í honum.

Jafnframt þarf að afla flokknum nýs fylgis.

Ljóst er að nú er mikil hreyfing og los á fylgi stjórnmálaflokkanna.

Ef Framsóknarflokknum tekst með skýrum hætti að gera grein fyrir erindi sínu við þjóðina og hvaða gildi hann leggur áherslu á trúi ég að stór hluti þjóðarinnar eigi samleið með flokknum.

Að þessu verkefni mun ég vinna að fullum krafti sem varaformaður Framsóknarflokksins," að því er segir á vef Sivjar Friðleifsdóttur.

Sjá nánar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert