Jón Gerald Sullenberger staðfestir þá frásögn Lúðvíks Bergvinssonar alþingismanns að hann hafi einungis komið um borð í margnefndan skemmtibát í eigu Íslendinga í Flórída meðan báturinn var færður á milli bryggna.
Jón Gerald segir að vinur Lúðvíks, Ásgeir Ragnarsson lögmaður, hafi leigt íbúð sem var nærri þeim stað þar sem Jón Gerald geymdi bátinn í Miami. Á þessum tíma átti Jón Gerald bátinn í félagi við Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Gerald segir að hann hafi verið um borð í bátnum þegar þeir Lúðvík og Ásgeir hafi komið til sín. „Ég var að fara með bátinn niður á Miami Beach Marina og ég bauð þeim að þeir gætu komið með mér, sem þeir gerðu,“ sagði Jón Gerald. Hann staðfesti að Lúðvík hefði ekki verið þarna í boði Baugs. Þessi stutta sjóferð þeirra þriggja hafi komið til vegna þess að Lúðvík var þarna í heimsókn hjá Ásgeiri.
Þá sagði Jón Gerald að Lúðvík væri eini alþingismaðurinn sem hann myndi eftir að hefði komið um borð í umræddan bát.