Tryggvi: Kem ekki nálægt Baugi

Tryggvi Jónsson.
Tryggvi Jónsson. mbl.is/ÞÖK

Tryggvi Jónsson hafnar því alfarið að hann tengist Baugi á nokkurn hátt í dag. Þá vísar hann þeim ásökunum Jóns Geralds Sullenbergers á bug, sem m.a. komu fram í þættinum Silfri Egils í Sjónvarpinu á sunnudag, að hann hafi verið arkitektinn að ýmsum viðskiptum Baugs sem hafi átt þátt í bankahruninu.

„Þetta er bara algjörlega út úr korti. Ég vann hjá Baugi til ársins 2002 og hætti þá. Þá var Baugur lítið fyrirtæki miðað við það sem síðar varð. Ég hef ekki unnið fyrir þá síðan og ekki komið að samningum með einum eða neinum hætti. Ég hef ekki þegið laun eða þóknanir frá þeim, en það er vilji sumra að reyna að halda mér þarna innandyra og reyna að koma þeirri skoðun á framfæri að ég sé innanbúðarmaður þar, og stýri öllu þarna með einum eða öðrum hætti. Það er hreinlega rangt,“ segir Tryggvi í samtali við mbl.is.

Spurður út í tengsl við fyrrum samstarfsfélaga, sem tengist Baugi, segir Tryggvi að hann hitti og tali við Jóhannes Jónsson, kenndan við Bónus, reglulega. Þar séu ágæt vinatengsl. „Það eru ekki atvinnutengsl,“ segir Tryggvi og bætir við: „Jón Ásgeir [Jóhannesson] hitti ég sjaldnar enda er hann mikið erlendis.“

Starfar við áhættustýringu hjá Landsbankanum

Tryggvi starfar hjá Nýja Landsbankanum í dag sem sérfræðingur. Hann segist hafa tekið að sér verkefni fyrir gamla bankann skömmu fyrir síðustu áramót, sem snerust um að endurskipuleggja allt útlánaeftirlit innan bankans. Hann segist hlotið fastráðningu þegar Nýi Landsbanki var stofnaður.

Nú vinni hann við áhættustýringu hjá bankanum. Starfið felist m.a. í því að skoða lánasöfn, sjá hvar áhætta liggi, hver niðurfærsla þurfi að vera og fara yfir ýmis tölfræðigögn. „Þetta er heildarskoðun en ekki þannig að ég sé í samskiptum við einstök fyrirtæki. Og bara til að undirstrika það, svo það sé algjörlega á hreinu, þá hef ég aldrei komið nálægt einu eða neinu sem tengist Baugi hérna innandyra,“ segir Tryggvi. Allar ásakanir um slíkt eigi ekki við rök að styðjast.

Spurður út í þá gagnrýni að hann skuli vera kominn til starfa hjá Landsbankanum segir Tryggvi: „Í ljósi þess að það sé verið að segja sögur að maður sé nátengdur þessum viðskiptamálum sem hafa átt sér stað síðustu ár þá er ósköp eðlilegt að fólk hugsi sig tvisvar um. Hins vegar er það þannig að ég kem ekki hingað til bankans sem fastráðinn starfsmaður fyrr en í október. Og hef ekki haft neina forsögu í þessum málum. Á þessu byggist misskilningur fólks, og sumir hafa verið duglegir að planta þeim misskilningi og við því er ekkert að segja.“

Spurður út í það hvort ráðningin sé það sem kalla mætti einkavinavæðing segir Tryggvi svo sé alls ekki. „Sá sem ég vinn nú hjá þekkti mig ekki. Við höfðum haft lítil sem engin samskipti fram að því að hann bauð mér þetta starf hérna hjá bankanum.“

Þá segist Tryggvi aðspurður ekki hafa komið að neinni útrás fyrir utan eina. „Ég aðstoðaði Garðar Thór Cortes, ásamt Einari Bárðarsyni, við að koma sér á framfæri erlendis. Það er eina útrásartengingin sem ég hef,“ segir hann. „Garðar er frábær listamaður sem ég vona og trúi að eigi eftir að ná langt.“

„Fólk vill sjá blóð“

Tryggvi, sem er fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, hlaut þyngsta dóminn þegar Hæstiréttur kvað upp sinn úrskurð í Baugsmálinu svokallaða í sumar. Hann hlaut 12 mánaða skilorðsbundinn dóm sem hann segir að hafi verið vegna brotalama í flóknu bókhaldi og vegna 500.000 kr. fjárdráttar, sem hafi verið að mestu leyti vegna frægrar dráttarvélar.
 
Hann segir ekkert óeðlilegt að fólk tengi þetta mál við það sem sé að gerast nú. „En þau mál, sem voru þar til umfjöllunar, gerðust fyrir tæpum áratug, eða frá árinu 1999 til 2001. Það er nú ekki þannig að þetta séu ný mál. Hins vegar voru þau mjög lengi í meðferð hjá hinu opinbera og þess vegna er dómur þar nýfallinn,“ segir Tryggvi.

„Fólk er brennt og það er skelfileg staða í þjóðarbúinu. Fólk vill sjá einhverja dregna til ábyrgðar og fólk vill sjá blóð. Og þá er oft auðveldast að slá til þeirra sem liggja vel við höggi,“ sagði Tryggvi Jónsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert