„Við ætlum að fara í skötuhaminn á morgun og þá mun allt ilma hér af skötu dögum saman. Ég ætla að bjóða upp á skötu sem ég hef verkað sjálfur en hún hefur verið látin marinerast eftir kúnstarinnar reglum frá því í september. Hún ætti því að vera orðin vel kæst. Ég hef notið góðs af því hversu mikið er af skötuverkendum hér á Grandanum og þeir hafa sagt mér til um verkunina,“ segir Magnús Ingi Magnússon, veitingamaður á Sjávarbarnum við Grandagarð, sem ætlar að vera með sex daga samfellda skötuveislu sem hefst á hádegi á morgun, fimmtudag.
„Best er að hafa hvítskötu og hafa hana stóra og mikla. Tindabikkjan er lítil og smá og ekki nærri eins vinsæl, en auðvitað býð ég samt líka upp á hana fyrir þá sem það vilja. Og hnoðmör verð ég að sjálfsögðu með. Svo verð ég auðvitað að vera með eitthvað mildara fyrir nýgræðingana, saltfiskurinn er töluvert vinsæll og sama er að segja um plokkfiskinn og köldu sjávarréttina. Ég verð líka með djúpsteikt fiskroð og annað spennandi, þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.“