Nýlega voru stofnuð samtökin „Af því okkur er ekki sama“ (Because we care) á vegum Íþróttaháskólans í Árósum. Samtökunum er ætlað að koma íslenskum nemum í Danmörku til hjálpar með fjárstyrkjum. Nú er svo komið að Íslendingar í eldri kantinum þiggja hjálp samtakanna.
Sjö eftirlaunaþegar á Íslandi fá nú fjárstyrk að því er segir á vefnum Stiftstidende. Þeir sneru sér í upphafi til íslenska sendiráðsins í Danmörku og nú fá allir sjö 5.000 danskar krónur.
Upphæðin er fengin úr 100.000 dkr. sjóði sem íþróttaháskólinn fékk fyrirfram fyrir styrktartónleika sem danskir listamenn standa að. Tónleikarnir verða haldnir á Íslandi á komandi ári.
Auk lífeyrisþeganna hafa 43 íslenskir nemar fengið 1.500 dkr. hver. Samtökin »Because We Care« hafa með þessum síðustu úthlutunum útdeilt 352.000 dkr. til nauðstaddra Íslendinga frá miðjum nóvember.
Íslensku nemarnir, sem upprunalega voru markhópur samtakanna, hafa í tengslum við efnahagsvandræðin á Íslandi upplifað það að virði námslána þeirra skrapp saman um helming.