„Fangelsiskerfið íslenska byggir í dag á skammsýni. Þungir dómar og mikil innilokun í fangelsi hefur sínar afleiðingar. Þær afleiðingar verða meiri í krepputíð. Hið eina skynsamlega er að taka upp heilbrigt fangelsiskerfi sem hlúir að samfélaginu. Það þýðir einfaldlega að snúa beri frá öryggissáráttu og opna fangelsin líkt og gert hefur verið annars staðar,“ skrifar Afstaða, félag fanga á Litla-Hrauni.
Á heimasíðu Afstöðu segir að enginn sparnaður felist í því að loka fangelsi eða fangelsum. Hið eina sem gerist er að biðlistar muni lengjast og holskefla ríða yfir kerfið áður en langt um líður. Nauðsynlegur kostnaður muni því margfaldast. Þá segir að fleiri fangar bíði afplánunar í dag en þeir sem rúmast í fangelsum landsins. Og þeim fjölgi stöðugt. Á endanum verði ekki pláss fyrir jafnvel þá sem framið hafi alvarleg afbrot.
Afstaða segir að í þeirri krepputíð sem nú ríki, verði fangar illa úti og verr en aðrir. Þeir hafi enga möguleika til tekjuöflunar og geti ekki tekið nokkurn þátt í baráttu fjölskyldunnar, hvorki fjárhagslega né á tilfinningalegum grundvelli. Fangar verði einfaldlega útundan, verði ekkert að gert. Afstaða telur nauðsynlegt að horfa strax til opinna úrræða og þess að losa fanga úr fangelsum sem fyrst, með hvaða ráðum sem tiltæk eru. Slík tæki felist í reynslulausnum og opnum afplánunar- og meðferðarúrræðum. Að öðrum kosti muni andfélagsleg árátta þeirra sem sitja í fangelsum magnast og bitna með auknum þunga á samfélaginu.
Afstaða telur hægt að spara með öðrum hætti en nú sé áformað. Lengingar biðlista og hörð innilokun í krepputíð sé enginn sparnaður, þvert á móti. Í dag kostar hver fangi 24.000 krónur á sólarhring eða tæplega 8,8 milljónir á ári. Þar við bætist aukinn kostnaður vegna heilsugæslu, skólagöngu, félagsþjónustu og tryggingamála.
„Þessi tala er allt of há og helgast eingöngu af því að Íslendingar hafa valið dýrasta fangelsiskerfi sem völ er á. Þessu er auðvelt að breyta,“ skrifa fangar á Litla-Hrauni.