Foreldar og dagmæður mótmæla skerðingu

Foreldrar utan við bæjarskrifstofurnar í morgun.
Foreldrar utan við bæjarskrifstofurnar í morgun. mbl.is/Svanhildur

Mikill urgur er í foreldrum ungra barna í Reykjanesbæ eftir að kvisaðist út að skerða ætti umönnunargreiðslur til foreldra um þriðjung. Foreldrar og dagmæður komu saman fyrir utan bæjarskrifstofurnar í morgun og létu skoðanir sínar berlega í ljós þó fámennt hafi verið.

Bæjarstjóri var upptekinn vegna viðtalstíma en Hjördís Árnadóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og félagssviðs, kom til fundar við mótmælendur enda heyra umönnunargreiðslurnar undir það svið. Umönnunargreiðslur fá foreldrar eftir að fæðingarorlofi lýkur og þar til barnið fær vistun á leikskóla.

Á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag var samþykkt að lækka umönnunargreiðslur úr 30 þúsund krónum í 25 þúsund. Þótt lækkunin sé minni en gert var ráð fyrir í upphafi finnst barnafólki að því vegið. Bent var á að frístundaskólagjöld hafi hækkað um rúm 50%, auk þess sem greiðsla fyrir eina tómstundagrein verður ekki lengur innifalin og afborganir af lánum og verð á neysluvörum hafi hækkað mikið.

Til stendur að funda með dagmæðrum og óska eftir því að þær komi til móts fyrir foreldra og lækki vistunargjöld hjá sér, en heyra mátti á þeim dagmæðrum, sem sóttu fundinn að af engu væri að taka, því gjöldin væru eins lág og þær kæmust af með.

Hjördís Árnadóttir sagði að umönnunargreiðslunnar væri eini útgjaldaliður fjölskyldu- og félagsmálasviðs sem ekki væri lögbundin, utan launa, og því eini liðurinn sem hægt væri að taka af. Auk þess taki milli- og yfirstjórnendur á sig 10% launaskerðingu en niðurskurður og launalækkanir eru í öllum þjónustugreinum bæjarins.

„Það var ýmislegt sem hægt var að bjóða upp á í góðærinu, en nú er því lokið og því miður verðum við að borga fyrir veisluna sem okkur var ekki boðið í,“ svaraði Hjördís þegar fundarmenn spurðu hvort Reykjanesbæ hefði ekki verið markaðssettur sem fjölskyldubær.

Foreldrar hafa áhyggjur af því að lyklabörnum í Reykjanesbæ eigi eftir að fjölga verulega, en þegar hafa fjölmargir foreldrar sagt upp vistun í frístundaskólum bæjarins. Hjördís benti á að gjaldskrá Reykjanesbæjar væri lægri en í flestum sveitarfélögum og nefndi m.a. skólagjöld fyrir tónlistarnám, sem að öllum líkindum muni hækka eftir áramót.

Ein dagmæðranna benti á að hingað til hafi svörin verið þau að ekki væri hægt að bera Reykjanesbæ saman við önnur sveitarfélög þar sem bærinn, og reyndar Suðurnesin öll, væri láglaunasvæði. Í andsvari benti Hjördís á að einmitt vegna þeirrar staðreyndar væru tekjur bæjarins af útsvari lægri en víða annarstaðar.

Sumir tóku sér hvíld.
Sumir tóku sér hvíld. mbl.is/Svanhildur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert