Formaður Sjálfstæðisflokks eyði misskilningi um landsfund

Styrmir Gunnarsson.
Styrmir Gunnarsson. mbl.is/ÞÖK

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir á vef Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins, að nauðsynlegt sé að formaður flokksins leiðrétti þann misskilning, sem hér virðist vera uppi um tilgang og markmið landsfundar, sem boðað hefur verið til í lok janúar. 

„Jafnframt er æskilegt að það komi skýrt fram, hvort hlutverk Evrópunefndarinnar og undirnefnda er einungis að safna gögnum og lýsa kostum og göllum eða hvort þessar nefndir eigi að leggja fram stefnumarkandi tillögur. Ef hlutverk nefndarinnar er einungis gagnasöfnun er nauðsynlegt að fram komi, hvort og þá hverjir leggi fyrir landsfundinn stefnumarkandi tillögur í Evrópumálum. Ef það er ætlunin að það verði hlutverk formanns og varaformanns er komin upp flókin staða, þar sem varaformaðurinn hefur lýst afstöðu sinni áður en hinu kalda hagsmunamati er lokið," segir Styrmir.

Vísar hann til þess, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður flokksins,  sagði við fréttavefinn Vísi sl. mánudag, að í viðtali við norska blaðið Klassekampen hafi hún sagt að Íslendingar ættu að fara í aðildarviðræður og það væri hluti af lausn Íslendinga í efnahagsmálunum.

„Varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur að sjálfsögðu fullt frelsi til að komast að þeirri niðurstöðu nú þegar að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Í ljósi yfirlýsinga bæði formanns og varaformanns hinn 14. nóvember sl. kemur það hins vegar á óvart, að annar af tveimur helztu forystumönnum Sjálfstæðisflokksins kveði upp úr með þá skoðun áður en hið „kalda“ hagsmunamat hefur farið fram með víðtæku samráði við almenna flokksmenn eða grasrótina, eins og þeir eru gjarnan kallaðir. Skiptir þetta víðtæka samráð þá engu máli?" spyr Styrmir.

Grein Styrmis Gunnarssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert