Framtíðin er fiskur!

Í greininni segir að nú standi Íslendingar í biðröðum eftir …
Í greininni segir að nú standi Íslendingar í biðröðum eftir því að fá vinnu í fiski. mbl.is

„Einhver bankamaður sagði að við þyrftum ekki á fiskinum að halda. Hann sagði að við gætum grætt peninga í gegnum bankana,“ segir Helgi Mar Sigurgeirsson vélstjóri í samtali við AP-fréttastofuna. „Ég myndi vilja tala við þennan bankamann núna,“ bætir Helgi svo við.

Í langri grein á vef AP er farið yfir það að Íslendingar hafi í gegnum tíðina lifað af fiskinum í sjónum, en þetta hafi breyst á nokkrum undangengnum árum. Dregin er upp rómantísk mynd af þessum afkomendum víkinganna sem við ill kjör sóttu sjóinn á litlum kænum. „Þetta var erfitt líf, litað hættu og átökum,“ segir þar.

Þorskastríðið er rifjað upp og lýsingar á því að Íslendingar hafi verið búnir að fá sig fullsadda af veiðiþjófnaði erlendra fiskiskipa. „Einhliða færðu Íslendingar út landhelgina nokkrum sinnum og enduðu í 200 mílum.“

Umhverfisverndarsinnar og erlend ríki eru minna hrifin af hvalveiðistefnu landsins, segir í greininni og rifjað er upp að þjóðin hafi tekið upp hvalveiðar að nýju árið 2006.

Haft er eftir Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra að iðnaður tengdur sjávarútvegi hafi ætíð verið hryggjarstykki íslensks efnahags. Efnahagsástandið geri það að verkum að „sjávarútvegurinn muni vaxa að mikilvægi á ný“.

Íslendingar hafa á undanförnum árum látið dáleiðast af auðfengnum aurum. Veikar reglur um efnahagsmál, bóla á verðbréfamarkaði og rísandi króna eru sagðar hafa hjálpað íslenskum framkvæmdamönnum að leggja í alþjóðlegt kaupæði. „Nýtt úrval ofurríkra Íslendinga flaug um á einkaþotum, ók um stræti Reykjavíkur á Hummer og Range Rover. Reykjavík breyttist úr hrjúfu sjávarþorpi í glansandi höfuðborg.“

„Við gátum ekki haldið sjávarútvegsfyrirtækjum gangandi nema með erlendu vinnuafli af því að Íslendingarnir voru uppteknir í bönkunum,“ er haft eftir Sigurði Sverrissyni, forstöðumanni kynningarmála hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna,  í greininni. Hann segir einnig að nú eftir bankahrunið mikla standi Íslendingar í biðröðum eftir störfum í fiskiðnaði þar sem miklar uppsagnir hafa átt sér stað í bankageiranum.

Í lok greinarinnar kemur fram að Sigurður Sverrisson sjái nú nýja ógn framundan fyrir sjávarútveginn, nefnilega Evrópusambandið, sem margir Íslendingar líti vonaraugum til í yfirstandandi efnahagserfiðleikum. „Með því að ganga í ESB þyrftum við að láta stjórnun fiskveiða af hendi,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert